Ríkið ábyrgist 90% af lánalínum Icelandair

Þota Icelandair á flugi.
Þota Icelandair á flugi. mbl.is/Árni Sæberg

Lagt er til í fjárlagafrumvarpi næsta árs að fjármálaráðherra hafi heimild veita Icelandair Group hf., sem sé kerfislega mikilvægt fyrirtæki, sjálfskuldarábyrgð frá ríkissjóði á lánum vegna tekjufalls fyrirtækisins í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

Fram kemur að heildarskuldbinding ríkissjóðs vegna þessa geti numið allt að 108 milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar um 14 milljörðum kr., eða sem jafngildi 90% af 120 milljóna Bandaríkjadala lánalínum til félagsins.

Í frumvarpinu segir m.a., að í byrjun september 2020 hafi Alþingi samþykkt heimildir fyrir ríkisábyrgð á lánalínum Icelandair í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru. Bent er á að aðkoma ríkisins að málefnum Icelandair byggist á fjórum meginforsendum; að aðkoma ríkisins sé nauðsynleg í þeim tilgangi að tryggja traustar og órofnar flugsamgöngur til og frá landinu, að tryggja að til staðar sé flugrekstraraðili sem taki öflugan þátt í efnahagslegri viðspyrnu þegar þar að kemur, að rekstrar- og samkeppnishæfni til lengri tíma sé tryggð og að lokum að almannafé og áhætta ríkisins verði takmörkuð við það sem þjóni opinberum hagsmunum en hafi ekki að markmiði að verja hag hluthafa eða lánardrottna.

„Fyrirgreiðslu ríkissjóðs við Icelandair er ætlað að stuðla að áframhaldandi rekstri félagsins og tryggja að fullnægjandi árangur geti náðst í fjárhagslegri endurskipulagningu þess, þ.m.t. árangursríku hlutafjárútboði. Ábyrgðin nemur 90% af lánalínum til þrautavara að fjárhæð 120 milljóna Bandaríkjadala, eða 108 m.USD (um 13,7 ma.kr. um síðustu áramót),“ segir í frumvarpinu.

Icelandair hefur heimild til að draga á lánalínurnar fram til september 2022 en þótt ekki sé gert ráð fyrir að til þess komi miðað við framlagða sviðsmynd um rekstraráætlun og uppgjör 2021 hingað til er enn umtalsverð óvissa í flugrekstri næstu misserin. Þar af leiðandi felur ábyrgðin í sér áhættu fyrir ríkissjóð enn um sinn,“ segir jafnframt í frumvarpinu.

Fjárlagafrumvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert