Einn stór misskilningur

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir það á misskilningi byggt að það komi til greina hjá bæjaryfirvöldum að rífa hús við Reykjavíkurveg til koma borgarlínunni fyrir.

„Varðandi þetta mál vil ég líta á það sem einn stóran misskilning,“ segir Rósa og bætir við að hún og fulltrúar meirihlutans telji það alls ekki koma til greina að rífa umrædd hús. Það hafi frá upphafi verið skýr stefna þeirra.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sem býr skammt frá Reykjavíkurvegi vakti á facebooksíðu sinni athygli á því að frestur til að skila inn athugasemdum við deiluskipulagsbreytingu átti að renna út í gær og birti á síðunni mótmælabréf sitt vegna málsins sem hann sendi Hafnarfjarðarbæ. Fresturinn  hefur nú verið framlengdur til 7. desember.

Rósa segir nýtt deiliskipulag fyrir vesturbæ Hafnarfjarðar hafa verið í vinnslu þar sem svokallað verndarsvæði skuli vera í byggð. Málið hafi verið vel kynnt, íbúafundir haldnir, bæði stór fundur sem hafi verið streymt og fundir með lóðahöfum og íbúðaeigendum.

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is

Mistök að láta orðalagið standa

Varðandi borgarlínuna segir hún að verkfræðingar hafi lagt til að hún færi í gegnum Reykjavíkurveg í samgöngusáttmála. Það hafi verið skýr stefna hennar að á umræddum kafla á veginum færi borgarlínan í gegnum almenna umferð, eins og gert er ráð fyrir í sáttmálanum að sum staðar sé hægt að gera. Höfundum skipulagsins vegna vesturbæjar Hafnarfjarðar, þ.e. arkitektum, hafi aftur á móti fundist að ávarpa þyrfti þann möguleika í greinargerð um verndarsvæðið að rífa húsin ef bæjaryfirvöldum framtíðarinnar snerist hugur og fór tillagan þannig í auglýsingu. 

„Við skulum bara viðurkenna að það voru mistök að láta þetta orðalag standa að heimilt væri að fjarlægja tiltekin hús,“ segir Rósa um að þessi möguleiki hafi verið nefndur í greinargerðinni og segir að húsin verði ekki rifin á þeirra vakt. „Ég er til í að þetta verði tekið út ef þetta er að valda svona miklum misskilningi,“ bætir hún við. „Gömlu húsin, einmitt við Reykjavíkurveg og víðar, gera bæinn okkar að því sem hann er og þarna eru einstök hús með mjög mikla sögu. Þetta var algjörlega skýrt í mínum huga þegar var verið að ganga frá samgöngusáttmálanum,“ greinir hún frá. „Þetta kemur ekki til greina á okkar vakt, bara alls ekki.“

Frá kynningu á fyrstu framkvæmdalotu borgarlínu.
Frá kynningu á fyrstu framkvæmdalotu borgarlínu. Teikning/Borgarlínan

Áréttar hún að þegar borgarlína kemur í gegnum Hafnarfjörð, sem samkvæmt áætlun á að gerast eftir fjögur til fimm ár, fer hún á þessum vegarkafla á Reykjavíkurvegi í gegnum almenna umferð eins og strætó gerir í dag. Nefnir hún að bæjar- og borgaryfirvöld ákveða hvernig borgarlína fer í gegnum þeirra svæði. „Við erum ekki að fara að þrengja götur eða annað slíkt sem aðrir eru að gera.“

Spurð út í möguleikann sem skipulagshöfundar nefndu um að rífa húsin ef aðrir tækju við stjórninni í bænum segir hún að ef nýir aðilar kæmu inn og vildu slíka vegferð þyrfti að taka deiliskipulagið aftur upp.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skilur að íbúum sé brugðið

Í samtali við mbl.is segist Jóhannes Þór Skúlason vilja að húsaröðin við Reykjavíkurveg verði innan verndarsvæðisins. Ótækt sé að þau verði rifin enda hluti af menningarsögu Hafnarfjarðar og fimm hús séu þegar friðuð. Þetta veki einnig upp spurningar um stöðu íbúa húsanna og nefnir hann að bærinn hafi ekki kynnt málið nægilega vel. Langflestir íbúar við Reykjavíkurveg komi af fjöllum vegna málsins.

Rósa kveðst skilja að íbúum við götuna sé brugðið. „Þess vegna er mjög gott að útskýra að þetta eru alls ekki áform bæjaryfirvalda og vonandi ekki neinna í framtíðinni.“

Facebookfærsla Jóhannesar Þórs:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert