Ekki er útilokað að landsdómstólar geti tekið afstöðu til gildis nýliðinna alþingiskosninga þó hin viðtekna skoðun sé sú að Alþingi eitt fari með úrskurðarvald í þeim málum, að sögn Valgerðar Sólnes, dósents við lagadeild Háskóla Íslands.
Annmarkar á kosningum í Norðvesturkjördæmi hafa valdið miklu fjaðrafoki í íslenskum stjórnmálum undanfarnar vikur og lá lengi vel ekki fyrir hvort að kjósa yrði aftur í kjördæminu eða hvort að seinni talning atkvæði yrði talin gild.
Á fimmtudaginn í síðustu viku fór fram atkvæðagreiðsla á Alþingi vegna málsins sem endaði með því að kjörbréf allra þingmanna voru samþykkt, með 42 atkvæðum gegn 5. Voru niðurstöður seinni talningar í Norðvesturkjördæmi þar með staðfestar.
Fyrir utan þann ágreining sem ríkir um hvort að rétt tillaga hafi verið samþykkt þá er fyrirkomulagið, sem felst í því að þingmenn Alþingis úrskurði um lögmæti sinna eigin kosninga, einnig nokkuð umdeilt.
Síðustu daga hefur Valgerður kynnt sér vel þau réttarúrræði sem kunna að standa þeim til boða er telja sig hafa átt rétt til þingsætis en fengu ekki, og hefur hún gert grein fyrir niðurstöðum sínum í grein sem birtist í vefriti Úlfljóts, sem er vettvangur fyrir lögfræðitengda umræðu á netinu.
Telur Valgerður tvo ólíka kosti í stöðunni. Annars vegar að leita til Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) þar sem að skorið yrði úr um hvort meðferð og úrlausn kosninganna hafi verið í bága við Mannréttindasáttmálann, og hins vegar að leita til landsdómstóla.
„Hvað réttarúrræði fyrir landsdómstólum varðar er ljóst að ekki er fræðilegur einhugur um hvort dómstólar séu til þess bærir að endurskoða úrlausn Alþingis um gildi kosninga því í 46. gr. stjórnarskrárinnar er svo fyrir mælt að úrskurðarvaldið sé á hendi þingsins,“ segir Valgerður.
Aldrei hefur reynt á það hvort að landsdómstólar geti tekið afstöðu til gildis alþingiskosninga hér á landi enda er það hin viðtekna skoðun að Alþingi eitt sjái um þau mál, segir Valgerður, en að hennar mati sé það þó ekki fræðilega útilokað.
„Þetta er stórt stjórnskipunarréttarlegt álitaefni: Mega dómstólar endurskoða þessa úrlausn?“
Ef kosningamálið ætti erindi fyrir landsdómstóla segir Valgerður tvo valmöguleika koma til greina, annars vegar að gera ógildingarkröfu þar sem landsdómstólar myndu endurskoða úrlausn Alþingis um gildi kosninganna, og hins vegar gætu frambjóðendur lagt fram skaðabótakröfu.
Hún tekur þó fram að ef niðurstaðan yrði sú að einungis Alþingi yrði talið fara með úrskurðarvald vegna kosninganna, þá væri samt hægt að láta reyna á skaðabótakröfuna.
Óumdeilt væri að ágallar hefðu verið á framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi, þó ekki væru allir sammála um hvort að þeir væru nægir til að ógilda kosninguna. Hins vegar séu skilyrði til að fallast á skaðabótaábyrgð önnur og vægari en skilyrði til ógildingar.
„Ég held að skaðabótakrafan eigi alltaf erindi hvað sem líður ógildingarkröfunni, og þá kannski fyrst og fremst krafa um miskabætur“ segir Valgerður að lokum.