Með þriðja skammti af bóluefni fær fólk 90% meiri vörn gegn Covid-19 en það hafði áður fengið með öðrum skammti. Þetta segir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. Ný gröf á Covid.is leiða í ljós verulegan mun á nýgengi smita hjá þeim sem hafa fengið tvo skammta og þrjá. Þá er nýgengið enn hærra hjá óbólusettum.
14 daga nýgengi á hverja 100.000 íbúa stendur nú í 751 hjá óbólusettum fullorðnum, 478 hjá fullbólusettum en 56 hjá þeim sem hafa fengið þrjá skammta af bóluefninu. Þá er munurinn á innlagnatíðni einnig verulegur.
„Þetta er rosalegur munur,“ segir Thor í samtali við mbl.is. „Það er mjög lítið af smitum ennþá í þeim hópi sem hefur fengið þrjár sprautur.“
Leiðrétt hefur verið fyrir aldur og kyn í gögnunum, þó kyn skipti reyndar litlu sem engu í þessu samhengi, en börn eru ekki tekin með inn í þær tölur sem nefndar voru hér að ofan. Í tölum á Covid.is eru þau þó nefnd og kemur í ljós að nýgengið er langhæst á meðal óbólusettra barna. Nýgengið er mun lægra á meðal fullbólusettra barna og er það í raun lægra en á meðal fullbólusettra fullorðinna. Það er þó hærra en hjá þríbólusettum fullorðnum.
Langflestir Íslendingar hafa fengið tvo eða þrjá skammta af bóluefni. „Svo þetta sýnir nánast hegðun heillar þjóðar og eru virkilega merkilegar niðurstöður,“ segir Thor.
Spurður um það hvort ekki sé of snemmt að segja til um svo góða virkni þriðja skammts segir Thor: „Það er ekki of snemmt að segja að þetta sé staðan heilt yfir.“
Hann segir aftur á móti að út frá þessum tölum væri of snemmt að segja að eitt bóluefni væri betra en annað en slíkt hefur verið skoðað erlendis.
„Við getum alveg séð það eftir einhvern tíma þegar komið er aðeins meira af smitum fram,“ segir Thor.
Sjálfur bíður hann þess að mega fara í örvunarskammt en það verður væntanlega núna í desember.
„Ég myndi sjálfur ekki vera með neinar áhyggjur af því hvort ég fengi Moderna eða Pfizer, ég myndi bara grípa fyrsta tækifæri sem gæfist til þess að fara í örvunarskammt,“ segir Thor.
Hér á landi fá flestir bóluefni Pfizer sem Thor segir að hafi sýnt mjög góða virkni í þriðja skammti.
Þó minni líkur virðist vera á því fyrir þríbólusetta að smitast af kórónuveirunni hafa örfáir slíkir smitast. Thor segir það ekkert óeðlilegt.
„Það þarf ekkert að koma á óvart þó einhverjir sem hafa fengið örvunarskammt smitist. Það var aldrei lagt upp með að þetta væri 100% vörn.“
En nú á væntanlega eftir að koma í ljós hversu lengi þessi vörn þriðja skammts dugir?
„Já, þetta er miðað við ástandið eins og það er núna. Við vitum ekki hversu lengi þetta heldur, hvort vörnin minnki með tímanum eða verði enn betri.“
Háskóli Íslands er hættur að birta spálíkön um faraldurinn en Thor styðst sjálfur við líkan Evrópusambandsins. Það spáir því að faraldurinn hér á landi sé á hægri niðurleið. Ákveðinnar óvissu gætir þó vegna Ómíkron-afbrigðis kórónuveirunnar sem ekki er vitað með vissu hvort sé meira smitandi en fyrri afbrigði veirunnar eða eigi auðveldara með að komast hjá verndinni sem bóluefni gegn Covid-19 veita.