„Hann er að gefa mér nýtt líf“

Hjálmar og Guðný röltu í miðbæinn, virtu fyrir sér Alþingishúsið, …
Hjálmar og Guðný röltu í miðbæinn, virtu fyrir sér Alþingishúsið, hvar Hjálmar sat oft sem varaþingmaður Framsóknar, daginn fyrir aðgerð og dreifðu huganum.

Guðný Þóra Guðmundsdóttir og Hjálmar Bogi Hafliðason hafa þekkst frá því að þau voru börn á Húsavík. Þau felldu hugi saman á fullorðinsaldri á sama tíma og heilsu Guðnýjar hrakaði mjög vegna nýrnameins.

Upp úr sambandi Hjálmars og Guðnýjar slitnaði þegar hún ákvað að flytjast til Noregs vegna aðstæðna barna sinna en þar taldi hún að börnin hennar þrjú fengju betri umönnun meðan á veikindum hennar stóð. Eftir nokkurra mánaða dvöl í Noregi var Guðný orðin svo veik að hún neyddist til að auglýsa eftir nýrnagjöf. Hjálmar Bogi, þá fyrrverandi kærasti Guðnýjar, reyndist bæði geta og vilja gefa henni nýra. Síðan þá hafa Guðný og Hjálmar Bogi tekið saman aftur og stefna á að flytja inn í nýtt hús á Húsavík á nýju ári. Þau ræddu sögu sína við blaðamann Morgunblaðsins kvöldið fyrir aðgerðir þeirra beggja. Aðgerðin fór fram á þriðjudaginn og gekk vel.

Bitnar mest á börnunum

Guðný var aðeins tólf ára þegar hún fékk streptókokka líkt og fjölmörg önnur börn. Sýkingin lagðist í tilfelli Guðnýjar á nýrun og er hún í dag með svokallað IgA-nýrnamein.

Sjúkdómurinn lýsir sér í háum blóðþrýstingi, ofsaþreytu, vöðvaslappleika, taugaverkjum, ógleði, krömpum í fótum, lystarleysi, húðvandamálum og fleiru. „Þetta er mjög víðfeðmt, það er þetta hefur áhrif á mörgum stöðum. En auðvitað fyrst og fremst á börnin mín.“

Árið 2004 fékk Guðný nýra frá föður sínum. „Það entist mér bara mjög vel. Ég gekk til að mynda í gegnum þrjár meðgöngur með það nýra. Ég er búin að vera með nýrað í sautján ár og það entist mér í raun mjög vel í þrettán til fjórtán ár,“ segir Guðný. Síðustu þrjú ár hafa veikindi Guðnýjar tekið sig upp. „Þegar fór að halla undan fæti gerðist það í raun mjög hratt.“

Guðný hefur því gengið í gegnum að veikjast, læknast og veikjast aftur og þekkir rússíbana heilsu og tilfinninga vel.

Á svipuðum tíma og Hjálmar Bogi og Guðný kynnast upp á nýtt á fullorðinsárum og taka saman er heilsu Guðnýjar tekið að hraka. „Ég myndi ekki segja að ég hafi verið orðin mjög veik þá, en ég var ekki fullfrísk,“ útskýrir Guðný um tímann þegar hún tekur saman við Hjálmar Boga.

Eftir eins árs samband ákvað Guðný að flytjast með börnin sín til Noregs, þar sem faðir barnanna bjó og þau höfðu búið saman áður. „Ég flutti til Noregs til þess að fá aðstoð með börnin mín. Ég fékk mikla aðstoð frá Hjálmari, ég fékk mikla aðstoð frá foreldrum mínum og vinkonum en mér leið eins og ég gæti ekki sinnt börnunum mínum eins og þau þurftu á að halda,“ segir Guðný. Hjálmar bendir á að Guðný hefði sömuleiðis getað átt von á því að vera kölluð inn í nýrnaskipti hvenær sem er, og þá þurfti hún að geta stokkið til með skömmum fyrirvara.

Hjálmar vaknaður en Guðný enn sofandi eftr aðgerðina sem fram …
Hjálmar vaknaður en Guðný enn sofandi eftr aðgerðina sem fram fór á þriðjudaginn. Aðgerðin gekk vel og dvelja þau á sjúkrahóteli.

Eins og hún væri í kviksyndi

Guðný segir að ákvörðunin hafi verið henni þungbær og að hún eigi oft erfitt með að útskýra hana fyrir fólki, „en mér leið eins og ég væri í kviksyndi og ég gat varla haldið sjálfri mér á floti, hvað þá þeim. Þarna var ég búin að vera í kviðskilun fjórum sinnum á dag í fjóra mánuði og hefði átt að gefa skiluninni lengri tíma og koma öllu í betri rútínu,“ segir Guðný.

Spurður út í hvernig hann hafi tekið þessari breytingu segist Hjálmar viðurkenna að tíminn hafi verið honum erfiður. „Ég viðurkenni að ég hafði tekið stór skref í átt frá mínu frelsi að skuldbindingu og ég viðurkenni að ég var mjög dapur yfir því. Ég var það,“ segir Hjálmar Bogi. Hann hafi þó alltaf tekið tillit til ákvörðunar hennar og ákveðið að reyna að hafa ekki áhrif á hana. „Hún tók þessa ákvörðun og ég studdi hana, eins langt og ég gat,“ bætti hann við. Spurður frekar út í hans líðan á þessum tíma, segir Hjálmar ekki ástæðu til gera mikið úr sínum persónulegu erfiðleikum á þessum tíma „í samanburði við hennar erfiðleika,“ segir Hjálmar Bogi hógvær.

Flutti út og heim, þeirra vegna

Guðný segist ekki hafa sjálf viljað flytja út, heldur hafi hún talið sig vera að létta líf barnanna sinna. Þau hafi þó ekki fundið sig úti og vildu flytja aftur heim til Húsavíkur. Það hafi glatt Guðnýju mjög.

„Ég tók þá ákvörðun að flytja út, þeirra vegna, og tók sömuleiðis ákvörðun um að koma heim, þeirra vegna,“ segir Guðný.

Þau fluttu heim í júní og höfðu þá búið í Noregi í tæpt ár. Hún segir að ákvörðunin um að koma heim hafi ekki síður verið erfið.

Spurð hvernig Guðný tilkynnti Hjálmari um ákvörðunina um að hún ætlaði að flytja aftur heim segja þau bæði að sambandið hafi aldrei slitnað og þau hafi verið í talsambandi allan tímann. „Svo bara hringdi hún og sagði: Ég ætla að flytja aftur heim,“ sagði Hjálmar Bogi sem hafði verið nýkominn heim af gönguskíðum.

„Hann gat ekki leynt því hversu glaður hann var,“ sagði Guðný og hló.

Guðný og Hjálmar tóku upp þráðinn hægt og rólega. Þau viðurkenna að fyrstu dagarnir eftir að Guðný og börn fluttu heim hafi verið svolítið vandræðalegir. Fyrsta skref hafi verið að endurnýja vinskapinn. „Við fórum ekkert beint í sleik sko,“ sagði Hjálmar. Guðný segir að hún hafi frekar verið tilbúin til þess að taka upp þráðinn aftur en Hjálmar hafi verið á bremsunni. „Hvað vissi ég nema að hún myndi fara aftur,“ sagði Hjálmar Bogi.

Vissu hvert endamarkið væri

„Vissuð þið bæði innst inni að þið mynduð taka aftur saman?“ spyr blaðamaður. „Já,“ svarar Hjálmar um hæl. „Við vissum alltaf hvert endamarkið væri, við vissum bara ekki alveg leiðina sem við ætluðum þangað,“ segir Guðný. Þau segjast ekki geta sagt til um hvenær þau urðu par að nýju, tengingin var alltaf til staðar eftir að Guðný kom heim.

„Hvenær kom nýrnagjöfin svo til?“ spyr blaðamaður enn frekar.

Guðný segir að Hjálmar hafi löngu áður boðist til þess að gefa henni nýra en fengið neitun vegna eigin heilsu. Í vor, skömmu áður en hún flutti heim, hafði Guðný gripið til þess örþrifaráðs að auglýsa eftir nýra. Hjálmar fór í blóðprufu um vorið og í ljós kom að hann var í sama blóðflokki og Guðný, sem þarf til þess að geta gefið nýra, en fékk engu að síður aftur neitun.

Þegar Guðný kom aftur til landsins í sumar sá hann hversu veik hún var orðin. Margir buðust til þess að gefa nýra eftir að Guðný auglýsti en allir sem buðust fengu neitun. Þegar frekar var grennslast fyrir um ástæður þess að Hjálmar mætti ekki gefa nýra kom í ljós að lítið stríddi gegn því. „Eins og læknirinn sagði þegar ég fór í allsherjarskoðun: Ég er mjög fallegur að innan.“

Hjálmar segir að nýrnagjöfin hafi aldrei verið spurning eftir það. Hann hafi ekki hikað og tilhugsunin ekki yfirþyrmandi fyrr en daginn fyrir aðgerðina, daginn sem viðtalið er tekið. Þá hafi mikið spurningaflóð sérfræðinga og þéttur undirbúningur dunið yfir.

Guðný og Hjálmar hafa þurft að velta upp öllum möguleikum og ræða hvernig þeim myndi líða með ákvörðunina, kæmi til sambandsslita. Hjálmar segir líffæragjöfina að sjálfsögðu skilyrðislausa, enda hafi hann verið tilbúinn í hana í eða utan sambands og að vel hafi verið farið yfir þetta í undirbúningi.

Brýnt hafi verið fyrir Guðnýju að henni mætti ekki líða eins og hún væri skuldbundin Hjálmari vegna þessa. „Ég get ekki annað gert en að hugsa það samt,“ segir Guðný og bætir við klökk: „Hann er að gefa mér nýtt líf. Hann er að gefa börnunum mínum og mér dýrmæt lífsgæði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert