Aðgerðir innanlands vegna faraldursins haldast óbreyttar næstu tvær vikurnar. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra og þingmaður Framsóknar, segir ástæðuna vera skort á gögnum um Ómíkron-afbrigðið. Það er smitnæmi þess og virkni bóluefna. Hann er þá ekki hrifinn af hugmyndinni um mismunandi takmarkanir eftir bólusetningarstöðu fólks.
„Við höfum bara ekki nægileg gögn um þetta Ómíkron-afbrigði. Sóttvarnalæknir er, í samvinnu við alþjóðastofnanir, að afla þessara gagna nú og til viðbótar við þann tíma sem nú er liðinn er talað um tvær vikur sem þurfi í þessa gagnasöfnun. Við þurfum að geta haft einhver gögn til hliðsjónar við ákvörðunartökuna,“ segir Willum í samtali við mbl.is fyrir utan ráðherrabústaðinn á Tjarnargötu.
Ákvörðunin var, eins og mbl.is hefur greint frá, í fullkomnu samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Hann segir að vissulega hafi verið skiptar skoðanir við ríkisstjórnarborðið, fólk sé á mismunandi skoðun um það hve hratt eigi að aflétta. Þó hafi allir verið sammála lendingunni að sinni.
Svona til að klára bara fótboltabrandarann, má segja að sé að það sé varnarsinnuð nálgun næstu tvær vikurnar?
„Já þetta er svona Klopp aðferðin. Tryggjum vörnina í bili og næst er það bara að vinna boltann og keyra af stað,“ sagði Willum léttur.
Spurður út í orð Þórólfs í gær þess efnis að faglegar forsendur liggi nú fyrir því að umræða geti hafist af alvöru um að þeir sem fengið hafa þrjá skammta af bóluefni sæti minni takmörkunum en aðrir segir Willum ljóst að umræðan sé einfaldlega farin af stað.
„Ég er hins vegar bara staddur þar í þessu máli að við verðum að virða sjónarmið allra.“
Hann segir kýrskýrt að bólusetningar veiti vörn gegn veirunni og að það sé klárlega hvatning fyrir fólk að þiggja bólusetningu. Hann segir þó einnig algjörlega ljóst að „það séu allskonar ástæður fyrir því að fólk fer ekki í bólusetningu og við eigum að forðast það í lengstu lög að taka ákvarðanir um aðgerðir sem skipta þjóðinni upp í hópa að þessu leyti.“
Vert sé að hafa í huga að umræðan nú í þessum efnum sé helst til almenn. Mögulega sé betra að tengja þessa umræðu stöku aðgerðum og þá sé hægt að eiga þessa umræðu með almennilegum hætti. Vísar hann þá til þess að þríbólusettir gætu ekki þurft að taka hraðpróf, til dæmis.
„Ég ítreka það samt að við eigum að virða sjónarmið allra í þessu.“
Spurður út í úrskurð Persónuverndar þess efnis að Íslensk erfðagreining hafið framið glæp við sýnatöku á sýktum einstaklingum í fyrra, sem mbl.is hefur áður greint frá, þá segir hann: „Formlega svarið er auðvitað að þetta er á borði dómsmálaráðuneytisins.“
Hann bætir þó við; „Ég viðurkenni það þó að mér finnst mjög sérstakt, miðað við þá krísu sem var uppi og þá staðreynd að Íslensk erfðagreining var eina fyrirtækið sem gat tekið raðgreiningarnar og við þurftum að bregðast þetta hratt við. Það er að við gátum ekki beðið eftir einhverjum formlegheitum með ákvarðanatöku og skjölun. Í ljósi þessa þá finnst mér þessi úrskurður mjög sérstakur.“