Ráðherra hafi auðvitað sínar skoðanir

Þórólfur segist eiga í góðu samtali við nýjan heilbrigðisráðherra.
Þórólfur segist eiga í góðu samtali við nýjan heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir áréttar að hann hafi ekki lagt fram tillögur þess eðlis að fullbólusettir einstaklingar eigi að fá afléttingu á sóttvörnum umfram óbólusetta. Hann hafi hins vegar sagt að ef þriðji skammtur af bóluefni reynist vel gegn Delta-afbrigðinu og svo Ómíkron-afbrigðinu, þá séu komnar faglegar forsendur fyrir slíkri umræðu.

„Ég hef sagt mjög skýrt, bæði opinberlega og í þessum minnisblöðum að ef það kemur í ljós, eins og virðist vera raunin, að þriðji skammturinn skiptir öllu máli hvað varðar Delta afbrigðið og ef hann gerir það líka fyrir Ómíkron-afbrigðið, þá eru komnar faglegar forsendur til að ræða það hvort að þeir sem hafa fengið örvunarbólusetninguna eigi að fá afléttingu á einhverjum takmörkunum. Það hafa ekki verið tillögur hjá mér. Ég hef bara sagt að þá geta menn rætt þetta á faglegum nótum og ákvörðunin er svo stjórnvalda,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is

Hann hafi hafi hins vegar sagt að honum finnist ekki fagleg rök fyrir því að veita bólusettum aukin réttindi umfram óbólusetta eftir aðeins tvær sprautur, líkt og margar þjóðir hafa gert.

„En það gæti orðið með þriðju sprautuna. Fagleg rök til að ræða það og taka ákvörðun um það. En ég er ekki að leggja það til og það er misskilningur hjá mörgum að halda það,“ ítrekar hann.

Heilbrigðisráðherra segir mismunun ekki vænlega

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði hins vegar í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrr í vikunni að hann teldi ekki vænlegt að bólusettir hefðu önnur réttindi en óbólusettir. Það þyrfti að varast að skipta fólki upp í einhverja hópa.

Hann er þá strax svolítið búinn að sópa þessari hugmynd út af borðinu, er það ekki?

„Hann er bara að lýsa sinni skoðun. Þessi umræða þarf að fara af stað og menn hafa mismunandi skoðanir á því. Þetta er bæði pólitísk ákvörðun og og siðfræðileg ákvörðun og annað slíkt. Þannig ég veit ekki hvort á að túlka ráðherra þannig að þetta sé hans endanlega niðurstaða eða hvort hann ætlar eitthvað að ræða það frekar. Hann verður að svara því. En auðvitað hefur hann sína skoðun á þessu,“ segir Þórólfur, en hann hefur ekki átt formlegt samtal við heilbrigðisráðherra um þetta mál.

Les ekki djúpt í orð ráðherra

Willum sagði einnig í áðurnefndu viðtali að bólusetning væri val hvers og eins og það ætti að virða þau ólíku sjónarmið sem lægju að baki ákvörðunar fólks að þiggja ekki bólusetningu.

Aðspurður segist Þórólfur ekki skilja orð hans þannig að hann sé að grafa undan þeirri bólusetningarherferð sem verið hefur í gangi hér á landi.

„Nei, nei það finnst mér ekki, alls ekki. Ég túlka þetta ekki þannig. Það er verið að benda á árangurinn af örvunarskammtinum gegn Delta-afbrigðinu sérstaklega. Sem er mjög mikill. Við vitum ekki enn með árangurinn gegn þessu Ómíkron-afbrigði. En Delta-afbrigðið er það sem við erum fyrst og fremst að eiga við núna. Yfirgnæfandi fjöldi þeirra sem eru að veikjast og veikjast alvarlega og leggjast inn á spítala eru með Delta-afbrigðið. Hvað sem verður svo eftir einhverjar vikur og mánuði. Mér finnst ekkert verið grafa undan því. Það á að vera hvatning til allra og við höfum beitt því fram að þessu. Við höfum ekki verið með neinar þvinganir. Við höfum verið að benda á árangurinn og hvetja fólk til að fara í bólusetningu og það er það sem mun skila okkur. Við erum með hlutfallslega miklu fleiri alvarlega veika sem ekki hafa farið í bólusetningu, heldur en þá sem hafa farið í bólusetningu.“

Þórólfur segist ekki lesa mjög djúpt í orð heilbrigðisráðherra. „Ég er ekkert að lesa voða djúpt í þetta, menn verða bara sjálfir að fá að túlka sín orð. Ég er ekki að leggja neina djúpa merkingu í það.“

Eðlilegt að ekki sé alltaf farið að hans tillögum

Þórólfur óttast ekki að stjórnvöld hætti að hluta á hans tillögur og gangi þvert gegn því sem hann telur vænlegast. „Ég held bara áfram að gefa mín bestu ráð, mín faglegu ráð. Það sem ég tel faglegast best að gera. Síðan er það stjórnvalda að ákveða hvað þau gera. Ég skil það alveg að stjórnvöld, sem þurfa á horfa til fleiri þátta, geri ekki allt sem ég legg til.“

Hann bendir enn og aftur á að við séum öll í þessu saman og það séu ekki bara hans tillögur sem skipti máli. Tillögurnar séu einskis virði ef ekki er farið eftir þeim. „Það er þessi samtakamáttur í samfélaginu sem hefur skilað því sem við höfum áorkað í þessu.“

Það er ekki komin mikil reynsla á samstarf Þórólfs og Willum, en Þórólfur segir samstarfið hafa gengið vel hingað til. „Við erum bara í þéttu samtali eins og ég var við fyrri ráðherra. Það er ekkert upp á það að klaga. Við erum í nánu samneyti þannig að ég hringi í hann þegar ég tel að það sé þörf á að upplýsa hann um ákveðna hluti og hann hefur samband við mig þegar hann þarf nánari upplýsingar um ýmislegt. Það er bara mjög fínt og nauðsynlegt að til að menn séu vel upplýstir og standi saman eins og hægt er. Það er bara í mjög góðu horfi myndi ég segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert