Úr Miðflokki í Sjálfstæðisflokkinn

Baldur Borgþórsson varaborgarfulltrúi Miðflokks t.h. ásamt Þórði Þórarinssyni framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins.
Baldur Borgþórsson varaborgarfulltrúi Miðflokks t.h. ásamt Þórði Þórarinssyni framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Ljósmynd/Facebook

Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi, sagði sig á dögunum úr Miðflokknum vegna deilna við flokkssystur sína Vigdísi Hauksdóttur borgarfulltrúa. Baldur er nú genginn til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og segir hann að tíðindin ættu ekki að koma á óvart.

Baldur tilkynnti á Facebook síðu sinni nú fyrir skömmu að hann hefði í dag lagt leið sína upp í Valhöll, hvar skrifstofur Sjálfstæðisflokksins eru til húsa, og skráð sig í flokkinn.

Hann segist í tilkynningunni að „afar gott samstarf við Eyþór Laxdal Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, og hans góða fólk sem hefur í hvívetna verið málefnalegt í sínum störfum og sýnt af sér framkomu sem sómi er að.“

Í ljósi þessa ættu vistaskiptin ekki að koma á óvart. Þá sagði hann góða tilfinningu að ganga inn í Valhöll á ný og rifjast hafi upp fyrir honum margar góðar minningar frá fyrri tíð.

Hann ítrekar þó að hann muni standa við kjör sitt með framboði Miðflokksins og hyggst sitja áfram sem fyrsti varamaður framboðsins í borgarstjórn út kjörtímabilið. Sveitarstjórnarmenn séu sjálfstæðir í störfum sínum og hyggst hann rækja skyldur sínar gagnvart kjósendum sínum af heilindum og einlægni.

Þakkar hann vinum sínum úr Miðflokki samfylgdina og óskar þeim að lokum alls hins besta.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert