Bergsveinn Birgisson rithöfundur birti rétt í þessu yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni, en Bergsveinn hefur ásakað dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra um ritstuld. Þar segir Bergsveinn hryggilegt að sjá hversu ómálefnalega Ásgeir og dr. Sverrir Jakobsson hafi valið að svara ásökuninni.
Bergsveinn bendir á að Ásgeir og Sverrir hafi, í stað þess að svara málefnalega greinargerð sinni sem birtist á Vísi, ákveðið að mála Bergsvein upp sem alþýðufræðimann en ekki „alvöru“ vísindamann.
Sverrir, sem er prófessor í miðaldasögu við Háskóla Íslands, sagðist í samtali við Fréttablaðið ekki hafa lagst í rækilegan samanburð á verkunum tveimur, en að hvorugt ritið væri skrifað sem sagnfræðirit.
Hann segist ekki viss hvort þessi tilraun þeirra sé gerð til þess að „þyrla ryki í augu siðanefndar Háskóla Íslands“ til þess að málið fái ekki málefnalega meðferð hjá nefndinni. Átakanlegt sé þó að verða vitni að þeirri skoðun að það sé álitið í lagi að stela af alþýðufræðimanni.
Bergsveinn segir ljóst að Sverrir hafi ekki áttað sig á því að hann sé doktor í norrænum fræðum og segir hann einnig að áratuga vísindaleg rannsókn liggi að baki bókarinnar. Hann segir Ásgeir og Sverri gera lítið úr fræðilegu inntaki bókarinnar.
Segir hann þá Sverri fara með rangt mál en „augljóslega sé um ritrýndan texta að ræða“. Bókin hafi komið út hjá einu virtasta fræðibókaforlagi Noregs. Segir hann tíu sérfræðinga hafa ritrýnt texta bókarinnar.
Í lok tilkynningarinnar áréttar Bergsveinn þá grundvallarreglu sem hann segir ljóst að hvorki Ásgeir né Sverrir virðist þekkja til.
„Að allt prentað efni sem er með svokölluðu copyright merki er verndað af höfundarréttarlögum. Gildir þar einu hvort um vísindamann eða alþýðufræðimann sé að ræða.“