Björn Zoëga ráðgjafi Willums

Björn Zoëga starfaði sem forstjóri Landspítala á árunum 2008 til …
Björn Zoëga starfaði sem forstjóri Landspítala á árunum 2008 til 2013. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Svíþjóð, hefur verið ráðinn sem tímabundinn ráðgjafi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra. Um hlutastarf er að ræða og mun Björn sinna því meðfram störfum sínum sem forstjóri en hann hefur þegar hafið störf.

Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.

Mikil vinna er framundan hjá nýjum heilbrigðisráðherra en helstu áhersluatriðin felast í heilbrigðismálum nýja stjórnarsáttmálans, innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar og greiningarvinnu sem gerð hefur verið á framtíðarþjónustu Landspítala.

Miklar breytingar á rekstri framundan

„Velferð Landspítalans er og verður ætíð mitt hjartans mál. Það eru fjölmörg tækifæri til að styðja við og styrkja stofnunina og starfsfólkið. Ég er því þakklátur og ánægður að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum, og aðstoða nýjan ráðherra í þessu mikilvæga verkefni,“ er haft eftir Birni í tilkynningunni en hann starfaði sem forstjóri Landspítala á árunum 2008 til 2013. 

Miklar breytingar á rekstri og yfirstjórn Landspítalans munu eiga sér stað á næstu misserum og er því mikilvægt að sérfróðir aðilar með þekkingu á rekstri slíkrar stofnunar séu til að veita ráð, segir Willum í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert