Erfitt getur verið að skrásetja sögu sem enn er að eiga sér stað og verður því þáttaröðin Stormur, sem fjallar um baráttu gegn faraldri Covid-19 hér á landi, ekki sýnd yfir hátíðarnar eins og stóð til. Stefnt er að því að frumsýna þættina á fyrri hluta næsta árs, að sögn Jóhannesar Kr. Kristjánssonar framleiðanda. Með honum starfa þeir Sævar Guðmundsson leikstjóri og Heimir Bjarnason klippari.
Sá síðastnefndi hefur þurft að horfa á allt myndefni sem safnast hefur í sarpinn á hvorki meira né minna en 375 tökudögum.
Ríkisútvarpið mun kaupa þættina og frumsýna þá mögulega yfir páskana, en nú er í það minnsta vitað að ekki er um jólaefni að ræða. „Ég held líka að fólk hafi horft á það að við erum í miðjum faraldri ennþá og fólk er bara orðið dálítið leitt á þessu. Kannski ekki alveg tilbúið að horfa á einhverja seríu um upphafið að þessu og svona,“ segir Jóhannes í samtali við Morgunblaðið.
Í vor var gefin út stikla að þáttaröðinni þar sem Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fellir tár í einlægu viðtali, fjölskyldu í Bolungarvík er fylgt eftir og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræðir viðbrögð við farsóttinni. Áhorfendur fá að skyggnast á bak við tjöldin og fylgjast með þríeykinu sem var í sviðsljósinu í byrjun faraldursins auk þess sem sýnt er frá aðstæðum á gjörgæslu- og Covid-göngudeild Landspítala.
„Við byggjum þessa þætti á persónulegum sögum fólks sem eru mjög sterkar. Þær eru svolítið límið í þessari þáttaröð. Hins vegar er það atburðarásin, eins og hægt er að segja frá henni í sjónvarpi,“ segir hann og bætir við að enn sé verið að vinna efnið.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.