Eigendur ökutækja sem öllum stundum eru notuð í Hrísey, Grímsey eða á Flatey á Breiðafirði geta nú fengið undanþágu frá skoðunarskyldu tækja sinna. Undanþágan tekur gildi um áramót og geta eigendur þá skráð bíla sína og önnur ökutæki í sérstakan notkunarflokk.
Nú reglugerð um skoðun ökutækja tók gildi í maí en þó var gildistöku tiltekinna breytinga frestað til áramóta. Eyjaflokkurinn er þar á meðal.
Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, segir að ökutæki í þessum tilteknu eyjum séu ekki í umferð með sama hætti og ökutæki á öðrum stöðum landsins, þau séu yfirleitt aðeins notuð til að komast á milli húsa. Þá hafi það verið óþægindi fyrir eigendur að þurfa að færa ökutækin upp á land til skoðunar. Nú er kveðið á um að ef ökutæki í þessum flokki eru færð upp á meginlandið falli undanþágan úr gildi og menn skuli færa ökutækið án tafar til reglubundinnar skoðunar.
Undanþágan nær ekki til ökutækja í Vestmannaeyjum. Gunnar bendir á að umferðin þar sé meiri en í fámennari eyjunum og lúti svipuðum lögmálum og umferð í sambærilegum bæjum uppi á landi. Þá séu samgöngur með þeim hætti að algengt sé að ökutækin séu notuð bæði á Heimaey og uppi á landi.
Breytingarnar sem taka gildi um áramót snerta lítið hinn venjulega bíleiganda, sem er með sitt á hreinu. Hins vegar hækkar vanrækslugjald, fyrir að færa ökutæki ekki til skoðunar á réttum tíma, úr 15 þúsund í 20 þúsund krónur og í 40 þúsund fyrir stærri bíla.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.