Mosfellsbær mun ekki samþykkja að setja niður sorpbrennslustöð ef það veldur íbúum óþægindum, að sögn Haralds Sverrissonar, bæjarstjóra.
Í skýrslu starfshóps um forverkefni til undirbúnings við innleiðingu framtíðarlausnar til meðhöndlunar á brennanlegum úrgangi í stað urðunar, kemur fram að hátæknisorpbrennsla sé besti kosturinn og að bygging slíkrar brennslu væri hagkvæmust í Álfsnesi.
Ekkert samráð hefur enn verið átt við bæjarstjórnina í Mosfellsbæ vegna hugmyndarinnar.
“Þetta er fyrst og fremst skýrsla gerð á vegum sorpsamtakanna, fýsileika athugun á sorpbrennslu yfirleitt,“ segir Haraldur og bætir við að hann sé sammála að koma þurfi upp slíkri tækni.
Í skýrslunni komu þrír staðir best út; Straumsvík, Helguvík og Álfsnes.
„Mér sýnist lítill munur á því hver þessara staða er hagkvæmastur og Álfsnes kom verst út hvað varðar nálægð við byggð.“
Haraldur segir að það þurfi að vega og meta kostnað saman við aðstæður íbúa, þar hljóti hagsmunir íbúa að vega þyngra.
Haraldur segir það ekkert launungamál að Mosfellingar séu búnir að vera að berjast fyrir því að urðunarstaðnum í Álfsnesi verði lokað, en náðst hefur samkomulag að loka honum árið 2023.
„Hann getur ekki verið svona nálægt byggð og svo er urðun úrgangs úrelt fyrirbrigði. Við þurfum að gæta þess að það komi ekki eitthvað annað jafnslæmt í staðinn.“
Þá bendir hann á að ef stöð af þessu tagi hefur hvorki áhrif varðandi mengun, lykt né sjónræn áhrif, þá séu aftur á móti engar málefnalegar ástæður fyrir því að setja sig upp á móti sorpbrennslustöð á Álfsnesinu.