Formaður Blaðamannafélags Íslands telur það lágmarkskröfu að á miðli skuli starfa ritstjórn svo hægt sé að skilgreina hann sem fjölmiðil. Hún er sömuleiðis ósammála því að eins manns miðlar, hvort sem um er að ræða hlaðvörp eða vefsíður, teljist til fjölmiðla þó hún standi ekki klár á því hver lágmarksfjöldi starfsfólks ætti að vera.
Hún kallar eftir frekari umræðu um þetta málefni.
„Upplýsingar sem birtast á fjölmiðlum eru – eða eiga að minnsta kosti að vera það – áreiðanlegri og trúverðugri heldur en upplýsingar sem birtast á öðrum miðlum og síðum sem lúta ekki ritstjórn og starfa ekki samkvæmt siðareglum Blaðamannafélagsins og þeim gildum sem blaðamennskan heldur uppi,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður BÍ í samtali við mbl.is.
Að sögn Sigríðar er það hið mikilvæga samtal sem á sér stað inn á ritstjórnum, sem gerir fjölmiðil að fjölmiðli, en þar sé meðal annars rætt um hvernig efni skuli meðhöndlað, hvað sé frétt og hvers vegna.
Vefsíðan Frettin.is hefur nýlega fengið skráningu sem fjölmiðill hjá Fjölmiðlanefnd. Í viðtali sem birtist í Stundinni á dögunum lýsti Sigríður miðlinum sem bloggsíðu sem vildi líta á sig sem fjölmiðil. Segir hún miðla sem setja fram fréttir í „ákveðnum tilgangi“ ekki starfa samkvæmt grundvallarreglum og boðorðum blaðamennskunnar.
Í sama viðtali sagði hún einnig að miðillinn Viljinn, sem rekinn er af Birni Inga Hrafnssyni og hefur einnig ásýnd fréttamiðils, væri ekkert annað en bloggsíða.
Talsverð umræða skapaðist í kjölfar þessar ummæla Sigríðar og töldu margir þörf á því að hún útskýrði mál sitt betur.
„Það sem ég geri athugasemdir við er að þau séu að kalla sig fjölmiðil þegar þau eru ekkert annað en bloggsíður. Og að þau séu að láta bloggsíðurnar sínar líta út fyrir að vera fréttasíður,“ segir Sigríður.
En ætti það ekki frekar að vera hlutverk Blaðamannafélagsins að styðja við sjálfstætt starfandi blaðamenn?
„Í þessu mati mínu fólst engin gagnrýni á störf þessa fólks eða á því efni sem þau eru að setja fram. Það er ekki mitt að dæma hvort þetta fólk er að fylgja siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Það sem ég geri athugasemdir við er að þau séu að kalla sig fjölmiðil þegar þau eru ekkert annað en bloggsíður.“
„En eins og ég sé blaðamennsku og hvernig ég sé fjölmiðla þá er ég ekkert að gera lítið úr bloggsíðum eða eins manns miðlum [...] þegar ég vil ekki ganga svo langt að kalla þannig miðla og þannig síður fjölmiðla. Það er bara mín persónulega skoðun.“
„Ef að virtasti fréttamaður landsins myndi labba út af sínum fjölmiðli og stofna fjölmiðil í sínu eigin nafni þá er það ekkert meiri fjölmiðill í mínum huga en Viljinn, því það væri aftur bara einn maður að segja það sem hann telur að séu fréttir. Ég er ekkert að gera lítið úr þannig miðlum. Því meira af góðu efni sem við höfum aðgang að, því betra. En það er ekki þar með sagt að hann sé fjölmiðill,“ segir Sigríður.
Hún útilokar þó ekki að eins manns miðlar, til að mynda Fréttin.is, geti orðið að fréttamiðlum.
„En þá ætla ég líka að vona það að þeir sem starfi þar og eru að reka þennan miðil geri það með gildi blaðamennskunnar og siðareglur blaðamannafélagsins að leiðarljósi,“ segir Sigríður og bætir við að stærsta gildi blaðamanna ætti ávallt að vera sannleikurinn og að þjóna sannleikanum.
„Það vona ég svo sannarlega að ef og þegar fleiri koma til starfa við þessa miðla að þá verði það grunnhugsunin eins og allir aðrir fjölmiðlar leggja upp úr.“
Að sögn Sigríðar hefur fjölmiðlaumhverfið tekið miklum breytingum á undanförnum árum og er því ekki jafn auðvelt að henda reiður á hvað teljist sem fjölmiðill og hvað ekki.
Kveðst hún þá ósammála ákvörðun Fjölmiðlanefndar að skilgreina hlaðvörp sem fjölmiðla.
„Ég sé engan mun á hlaðvarpi eins manns og bloggi eins manns. Þá spyr ég bara, ef Fjölmiðlanefnd vill skilgreina öll hlaðvörp sem fjölmiðla, á þá ekki að skilgreina öll skrif á öllum vefsíðum og öll blogg með sama hætti?“
Er ég að skilja þig rétt að þú gerir þá kröfu að á miðli starfi ákveðið margir einstaklingar svo hægt sé að skilgreina hann sem fjölmiðil?
„Já og ég hef ekkert svar við því hvað þeir þurfa að vera margir. Er nóg að þeir séu tveir, þurfa þeir að vera þrír? Og afhverju? Ég hef ekki svarið en þetta er bara mitt mat á því að þegar ein manneskja er að skrifa á vefsíðu að þá er það ekki fjölmiðill. En svo bara kalla ég eftir þessari umræðu og fagna því að hún sé komin upp á yfirborðið.“