Athugasemdir sem komið hafa fram á síðustu dögum við mat Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á alvarlegum afleiðingum Covid-19 hjá börnum og virkni bólusetninga sem birt var í pistli á covid.is 13. desember síðastliðinn eru réttar og hefur matið nú verið leiðrétt.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti landlæknis.
Þórólfur segir þær athugasemdir sem snúi að skilgreiningu á smiti og sýkingu með einkennum vera réttar og þakkar hann fyrir ábendingarnar.
„Í pistlinum var talað um að spítalainnlagnir hjá börnum á aldrinum 5-11 ára af völdum COVID-19 væru um 0,6% af öllum smitum og var vitnað í samantekt Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins. Eins og réttilega kemur fram í athugasemdunum þá var hlutfall spítalainnlagna 0,6% hjá þeim börnum sem voru með einkenni af völdum COVID-19 en einkennin voru ekki skilgreind nánar. Það er því rökrétt að álykta sem svo að hlutfallið sé sennilega lægra þegar miðað er við öll smit með eða án einkenna.“
Þegar upplýsingar frá Bandaríkjunum eru skoðaðar og vitnað var til í fyrrgreindum pistli þá eru sjúkdómstilfelli ekki aðgreind eftir einkennum. Líklegt má því telja að fjöldi tilfellanna samanstandi bæði af börnum með einkenni og börnum án einkenna. Hlutfall spítalainnlagna í Bandaríkjunum er hins vegar svipað og greint er frá í uppgjöri Sóttvarnastofnunar Evrópu,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir einnig að hlutfall einkennalausra barna sem greinst hafa smituð á Íslandi sé ekki þekkt og að erlendum rannsóknum beri ekki saman. Í samantekt Sóttvarnarstofnunar Evrópusambandsins sé þó vitnað eina rannsókn þar sem talið sé að allt að 50% barna með Covid-19 geti verið einkennalaus en í nýlegri samantekt sem vitnað sé til í Uptodate sé talið að hlutfallið geti verið á bilinu 15-42%.
„Ef áætlað er að meðaltal úr bandarísku rannsóknunum sé nærri raunveruleikanum þá má álykta að einkenni sjáist hjá 70% barna sem smitast af COVID-19. Ef öll 32.000 börn hér á landi á aldrinum 5-11 ára smitast af COVID-19 þá gæti útkoman orðið eftirfarandi: innlagnir gætu orðið 134 (í stað 100-200 sem getið var um í pistlinum), 13 lagst inn á gjörgæsludeild (í stað 16 sem getið var um í pistlinum) og um eitt barn látist (í stað 1-2 sem getið var um í pistlinum).“
Í tilkynningunni segir einnig að athugasemdir hafi borist um umfjöllun um virkni bólusetningar hjá börnum á aldrinum 5-11 en í umræddum pistli var sagt að hún væri 90% gegn smiti. Eins og réttilega hafi verið bent á sé virknin 90% gegn smiti hjá börnum með einkenni. Ávinningur af bólusetningunni sé þó eftir sem áður ótvíræður.
„Heildarniðurstaða pistilsins frá 13. desember er hins vegar óbreytt þ.e. að COVID-19 getur verið alvarlegur sjúkdómur hjá börnum sem réttlætir bólusetningu.“