Fjármála- og efnahagsráðuneytið vill ekki fallast á tillögur sem fram hafa komið um að virðisaukaskattsívilnun (VSK-ívilnun) vegna tengiltvinnbíla verði framlengd um áramótin. Þetta kemur fram í umfjöllun ráðuneytisins um umsagnir sem borist hafa við fjárlagafrumvarpið.
Bílgreinasambandið, Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu og Samtök verslunar og þjónustu gerðu í sameiginlegri umsögn athugasemdir við að ívilnunin vegna tengiltvinnbifreiða muni lækka skv. frumvarpinu úr 960 þús. kr. á hverja bifreið í 480 þús. kr. og renni sitt skeið á enda þegar viðmið um 15 þúsund tengiltvinnbifreiða hámarki verður náð, sem talið er að verði á fyrri hluta næsta árs.
Í ítarlegri greinargerð ráðuneytisins eru tekin af öll tvímæli um að ekki sé rétt að ráðast í framlengingu á VSK-ívilnun vegna tengiltvinnbíla. Tillögur samtakanna um áframhaldandi aðgerðir í formi VSK-ívilnana fyrir tengiltvinnbíla hafi í för með sér gífurlegan kostnað fyrir ríkissjóð. Hann gæti samkvæmt grófu mati verið um 20 milljarðar kr. Það sé niðurstaða ráðuneytisins að ekki sé rétt að ráðast í framlengingu á þessari ívilnun vegna tengiltvinnbíla.
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.