1.700 skjálftar mælst á síðasta sólarhring

Náttúruvársérfræðingur segir jarðskjálfahrinuna líkjast aðdraganda eldgossins sem hófst í mars. …
Náttúruvársérfræðingur segir jarðskjálfahrinuna líkjast aðdraganda eldgossins sem hófst í mars. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikið álag er á kerfum Veðurstofunnar vegna hrinu jarðskjálfta sem hófst síðdegis í gær við Geldingadali en rúmlega 1.700 skjálftar hafa mælst frá því um fimmleytið.

Náttúruvársérfræðingur segir ómögulegt að yfirfara allan þann fjölda jarðskjálfta sem greinst hafa á mælum, enda sé Veðurstofan enn að fara yfir skjálfta frá því í febrúar. 

„Við tökum bara stærstu skjálftana. Svo þurfum við að passa að fylgjast með því sem er ekki á þessu svæði upp á ef það er eitthvað að ske í Vatnajökli eða á öðru svæði þannig að það fari ekki framhjá okkur,“ segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Álag á kerfið gerir það að verkum að jarðskjálftar eru …
Álag á kerfið gerir það að verkum að jarðskjálftar eru ranglega staðsettir á kortum. Kort/Veðurstofa Íslands

„Ef þú horfir á kortið á vefsíðunni okkar þá sérðu alveg skjálfta sem eru að fara upp á Snæfellsnes og niður með landinu. Þetta er bara af því að það eru svo ótrúlega margir skjálftar sem eru að fara inn að kerfið á erfitt með að staðsetja allt. Þannig þetta fer að dreifast meira. Þessir skjálftar eru ekki á Snæfellsnesi, þetta eru líklegast þeir sem eru á Reykjanesinu.“

Líkist hrinunni sem hófst fyrir gos

Bryndís Ýr segir jarðskjálftahrinuna sem stendur yfir núna líkjast þeirri sem hófst í febrúar, örfáum vikum áður en gosið í Geldingadölum hófst þann 19. mars. Segir hún að líklega megi rekja skjálftana til kvikuhreyfingar en frá því að gosinu lauk hafa verið merki um kvikusöfnun.

„Það er alveg líkleg skýring, að það sé eitthvað í gangi.“

Fólk verður að huga að jólaskrauti

Að minnsta kosti þrír skjálftar hafa verið yfir 4 að stærð á Reykjanesinu á síðastliðnum sólarhring, þar af einn sem mældist 4,9 klukkan 9.23 og fannst hann víða á suðvesturhorninu. 

„Eins og skjálftahrinan var fyrir gos þá vorum við alveg að fá skjálfta milli 4 og 5 að stærð. Sá stærsti var 5,6. Þá er spurning hvort það sé innistæða fyrir einhverju svona núna. Það verður bara að koma í ljós.“

Bryndís kveðst ekki vita til þess að eitthvað tjón hafi átt sér stað á heimilum fólks vegna skjálftanna en hún segir þetta þó góða áminningu fyrir fólk að festa hluti og huga að því sem það er með á veggjum.

„Sérstaklega að vera ekki með fyrir ofan rúm. Líka ágæt áminning fyrir jólaskrautið – ef þú ert með eitthvað fínt að hafa það ekki þar sem það gæti dottið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert