Ekki óvanalegt að bólusetja í skólum

Bólusetning barna 12 ára og eldri fór fram í Laugardalshöll.
Bólusetning barna 12 ára og eldri fór fram í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir kveðst skilja áhyggjur foreldra vegna fyrirhugaðra bólusetninga barna á aldrinum fimm til ellefu ára gegn Covid-19. Hann segir þó niðurstöður rannsókna gefa til kynna að alvarlegar aukaverkanir vegna bólusetninga séu mun sjaldgæfari samanborið við alvarlegar aukaverkanir vegna Covid-19 meðal barna.

Kórónuveirusmit meðal grunnskólabarna hafa verið áberandi í þessari bylgju en í september var í fyrsta sinn barn lagt inn á Landspítala með Covid-19 frá upphafi faraldursins. 

Greint var frá því á mánudag að sveitarfélögin hefðu fallist á beiðni heilbrigðisyfirvalda um að lána húsnæði til bólusetninga barna eldri en fimm ára. Framkvæmdin mun hefjast eftir áramót en að sögn Jón Viðars Matthíassonar, framkvæmdastjóra almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, verður líklegast bólusett í grunnskólum.

Ekki eru allir sáttir við þá ákvörðun um að bólusetja í húsnæði skólanna en Samtökin frelsi og ábyrgð sendu fyrir helgi bréf til almannavarna þar sem lýst var yfir áhyggjum vegna þess.

„Verði þess­um áætl­un­um fram­fylgt má leiða lík­ur að því að það verði á allra vitorði, nem­enda og starfs­fólks skól­ans, hverj­ir hafa eða hafa ekki fengið um­rædda sprautu,“ seg­ir í bréf­inu.

Spurður út í þessa umræðu, segir Þórólfur að enn sé verið að vinna að góðri lausn í samráði við menntamálayfirvöld. Hann tekur hins vegar fram að ekki sé óvanalegt að bólusetningar fari fram í skólum.

„Ég vil bara minna á að bólusetningar barna hafa áður farið fram í skólum og fara fram í skólum. Þetta er ekkert nýtt. Það sem er nýtt er bara þetta nýja bóluefni.“

Alvarlegar aukaverkanir sjaldgæfar

Að sögn Þórólfs leggja sóttvarnayfirvöld upp úr því að koma sannreyndum upplýsingum á framfæri til grundvallar þess að foreldrar geti tekið upplýsta ákvörðun um bólusetningu barna sinna. Þá segir hann gögn gefa til kynna að alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetninga séu mun sjaldgæfari en alvarlegar aukaverkanir í kjölfar Covid-19 meðal þessa aldurshóps.

„Við erum til dæmis að fá upplýsingar frá Bandaríkjunum um aukaverkanir eftir bólusetningar hjá um það bil sjö milljónum barna sem hafa verið bólusett. Þegar menn eru að tala um þessa hjartavöðvabólgu þá eru það kannski um tveir af milljón sem hafa verið bólusett og tilkynnt er um. Þannig þetta er gríðarlega sjaldgæft.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert