Gengið er út frá því að Háskóli Íslands fái um 73% af húsnæði Bændahallarinnar eftir að skrifað var undir sölu á húsnæðinu frá Bændasamtökunum til íslenska ríkisins og Félagsstofnunar stúdenta. Fær Félagsstofnunin því um 27% og verður það nýtt undir íbúðir fyrir nemendur. Þetta staðfestir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við mbl.is, en hann hendir jafnframt fram hugmynd að nýju nafni fyrir húsið. Nemendur við Hagaskóla munu fyrst um sinn áfram stunda nám í húsnæðinu, en vonast er til að full starfsemi háskólans geti hafist þar haustið 2024.
Jón Atli segir að kaupin hafi verið „löng fæðing en að mjög mikilvægt sé að menntavísindasviðið komi núna á háskólasvæðið.“ Vísar hann þar til þess að frá árinu 2008, þegar Háskóli Íslands og Kennaraháskólinn sameinuðust, hafi verið stefnt að því að samþætta meginfræðasvið skólans á sama svæði.
„Það á eftir að ganga nákvæmlega frá eignaskiptalýsingu,“ segir Jón Atli spurður um hversu stóran hluta háskólinn fái af eigninni, en að unnið hafi verið út frá því að háskólinn fái 73% á móti 27% hjá Félagsstofnun.
Samkvæmt afhendingaráætlun milli Bændasamtakanna og kaupenda er gert ráð fyrir að hluti hússins og ytra birgði verði afhent 10. janúar. Næstu vikur og mánuði verði svo aðrir hluta hússins afhendir, en Jón Atli segir að það sé gert til að gefa eigendunum svigrúm til að losa húsið. „Það verða nokkrir mánuðir sem tekur að afhenda húsið að fullu,“ segir hann.
Jón Atli staðfestir að háskólinn hafi fallist á að Hagaskóli fái að nýta rými í Bændahöllinni í byrjun næsta árs vegna myglunnar sem kom upp í Hagaskóla, en skólinn er þegar að nýta hluta hússins. Hann segir að samhliða muni samt framkvæmdir við húsnæðið hefjast til að gera það klárt fyrir framtíðarhlutverk sitt. „Það gæti tekið tvö til tvö og hálft ár,“ segir hann spurður um framkvæmdatímann. Vonast Jón Atli til að menntavísindasvið geti því að fullu verið flutt inn ásamt annarri starfsemi skólans haustið 2024. „Það er markmiðið núna,“ segir hann en tekur fram að mögulega verði hluti starfseminnar kominn þar inn fyrr.
Menntavísindasviðið er í dag í Skipholti og Stakkahlíð. Jón Atli segir að háskólinn muni nýta það húsnæði þangað til flutningurinn er að fullu frágenginn, en í kjölfarið verður það á höndum ríkiseigna að ráðstafa Skipholti og Stakkahlíð.
Fram hefur komið áður að áætlaður kostnaður við kaupin og endurbætur á þeim hluta sem nær til Háskóla Íslands sé um 6,5 milljarðar. Jón Atli staðfestir að kaupverðið hafi verið um 4,9 milljarðar í heild, þar af um 3,5 milljarðar fyrir þann hluta sem Háskóli Íslands hafi til umráða og 1,4 milljarðar fyrir Félagsstofnun stúdenta. „Svo er endurbótakostnaður upp á um 3 milljarða,“ segir hann. Samkvæmt tölum Þjóðskrár er birt stærð húsnæðisins 17.972 fermetrar.
Jón Atli tekur sérstaklega fram að nokkur umræða hafi skapast um fyrirhugaðar endurbætur og að margir hafi lýst áhyggjum af því að farið verði illa með húsið. „Við munum fara vel með sögu hússins og sýna arkitektúrnum mikla virðingu og reyna að halda sem flestu í upphaflegu horfi,“ segir hann. Nefnir hann sérstaklega Súlnasal, Grillið og ytri ásýnd hússins. „Við munum svo sannarlega huga vel að sögunni,“ segir hann og verður blaðamaður að játa að vera ekki viss um hvort þarna hafi Jón Atli haft í huga stóran eða lítinn staf.
Hefð er fyrir því að byggingar Háskóla Íslands fái sérstök nöfn. Þannig bera nokkrar byggingar t.d. nöfnin; Eirberg, Lögberg, Gróska, Gimli, Askja, Oddi og Veröld. Spurður hvort notast eigi áfram við nafnið Bændahöllin eða hvort hann vilji taka upp nýtt nafn stendur ekki á Jóni Atla. „Það hefur nú ekki verið rætt mikið, en ég segi strax að mér finnst nafnið Saga mjög fallegt.“ Þá segir Jón Atli að líklega muni nafnið Bændahöllin lifa eitthvað áfram þó að Háskólinn taki upp nýtt nafn. Slíkt sé mjög eðlilegt þegar um þekkt hús sé að ræða. Ítrekar hann þó að ekki sé búið að ganga frá neinu í þessu sambandi, en að þarna sé mögulega kominn grunnur að umræðu um nýtt nafn hússins.
Í stefnu Háskólans fyrir árin 2015 til 2021 var lögð áhersla á að sameina skólann á eitt svæði. Heilbrigðisvísindasviðið er reyndar áfram dreift á nokkrum stöðum um höfuðborgarsvæðið, en Jón Atli segir að unnið sé að því að færa starfsemina að mestu í stækkaða byggingu við Læknagarða samhliða uppbyggingu við Hringbraut. Með samningnum í dag sé hitt stóra skrefið stigið sem sé færslan á menntavísindasviðinu. „Núna er þetta loksins að gerast,“ segir Jón Atli og vísar til þess að frá því að Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, undirritaði viljayfirlýsingu í júní í fyrra um að koma sviðinu fyrir á háskólasvæðið hafi hjólin farið að snúast á fullt. „Ég vil bara þakka ríkisstjórninni, alþingismönnum, embættismönnum í fjármálaráðuneytinu og háskólaráði fyrir stuðninginn í þessu máli.“
Eins og flestar stofnanir og vinnustaðir hefur Háskóli Íslands ekki farið varhluta af allskonar aðgerðum í kringum faraldurinn. Jón Atli rifjar upp að skólanum hafi verið lokað, kennsla fært á rafrænt form og svo hafi skólinn lent í miklu áfalli með gríðarlega mikið vatnstjón í byrjun ársins. „En þetta er allavega mjög jákvætt í fyrir háskólann í þessum faraldri,“ segir hann að lokum um kaupin á Bændahöllinni.