Allt að 20% hætt erlendis vegna álags

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Álagið á heilbrigðisþjónustuna hefur verið mikið í Danmörku og hafa Danir ákveðið að fresta öllum skurðaðgerðum sem geta beðið vegna kórónuveirunnar.

Ekki hefur þó þurft að grípa til sömu aðgerða hér á landi vegna Ómíkron-afbrigðisins.

0,8% Dana sem hafa smitast af afbrigðinu hafa verið lagðir inn á sjúkrahús og er hlutfallið töluvert lægra en af völdum Delta-afbrigðisins. Hingað til hefur afbrigðið ekki náð til eldri aldurshópa af neinu ráði og fólks í viðkvæmri stöðu þar í landi.

Þetta sagði Alma Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna en nokkuð var talað um stöðuna í Danmörku á fundinum í morgun.

Hún bætti við að álagið á Landspítalanum hafi verið mikið um langt skeið. Þar sé ekki einungis Covid-19 um að kenna. Hún sagði allar legudeildir nema Covid-smitsjúkdómadeildina vera fullar, mikið sé að gera á gjörgæsludeildum og að álag á bráðamóttökunni hafi verið mikið.

Alma sagði að þrátt fyrir að stjórnvöld hafi beitt sér fyrir opnun 130 legurýma, að hjúkrunarrýmum hafi fjölgað um 140 frá því að faraldurinn hófst og dagdvalarrýmum um 53, heimaþjónusta hafi aukist og verið sé að opna hágæslurými sé staðan þung á Landspítalanum. „Þess vegna höfum við áhyggjur af þessari stóru bylgju af Ómíkron,“ sagði hún og kvaðst óttast að ef smitin verði mörg þurfi mun fleiri að leggjast inn.

Alma talaði einnig um þreytu starfsfólks Landspítalans vegna glímunnar við kórónuveiruna. Það hafi þolað álagið vel framan af en núna hafi það verið í eldlínunni í tvö ár. Hún sagði allt upp í 20% hafa hætt í öðrum löndum vegna álags og þess vegna þurfi að fletja kúrfuna og gera starfsfólki hérlendis kleift að ráða við verkefnið.

Hún minntist einnig á notkun gríma og sagði mikilvægt að þær hylji bæði nef og munn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert