Segist óttast að verið sé að grafa undan réttarríkinu

Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins undirritar drengskapaheit við stjórnarskránna.
Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins undirritar drengskapaheit við stjórnarskránna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég óttast að það sé verið að grafa undan réttarríkinu smám saman undir því yfirskyni að það sé verið að styrkja réttarríkið,“ sagði Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Óla Björns Kárasonar, í jómfrúarræðu sinni á Alþingi í gær í annarri umræðu fjárlaga.

Í ræðu sinni talaði Arnar um að hér á landi gæti verið að renna upp einhversskonar nýtt stjórnarfar og að almenningur og mögulega þingheimur átti sig ekki á því hvað sé að gerast.

„Í praktísku tilliti stöndum við frammi fyrir því að það er verið að veita hér út fjármunum í stórum stíl með vísan til hættu eða neyðarástands og þetta er vissulega skiljanlegt í upphafi kórónuveirufaraldursins en ég leyfi mér að efast um að þetta sé skiljanlegt og réttlætanlegt á þeim tíma sem að nú er runninn upp,“ sagði Arnar.

„Ég hef kallað þetta heimatilbúna innviðakrísu“

Þá talaði Arnar um að  útfrá almennum kenningum í stjórnarfari og stjórnskipunarrétti sé ekki viðurkennt að hægt sé að tala um neyðarástand ef valdhafar sjálfir hafa stjórn á þeim aðstæðum sem veldur neyðinni.

„Ég á við það að hér hefur ítrekað verið vísað til þess að við getum ekki gert annað en að þrengja og leggja meiri höft á borgarlegt frelsi í landinu vegna þess að sjúkrahúsin ráði ekki við meira og það er vísað til þess að það sé plássleysi á Landspítalanum.“

Arnar segir þá að ef gluggað sé í heimildir komi í ljós að legurýmum á íslenskum heilbrigðisstofnunum hafi fækkað á síðustu árum, árið 2007 hafi þau verið 1.283 talsins en farið niður í 1.009 á árinu 2020.

„Þetta er augljóslega atriði sem að íslensk stjórnvöld hafa forræði á að leiðrétta, þannig að ég hef kallað þetta heimatilbúna innviðakrísu og ég hef sagt að á slíkum grunni er ekki hægt og ekki lögmætt að hneppa fólk í einhversskonar helsi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert