Hundarnir tveir sem drápu heimiliskött í Laugarnesinu á Þorláksmessu eru komnir aftur í hendur eigenda sinna. Eigandi kattarins telur að hundarnir tveir, sem eru ungverskir veiðihundar af tegundinni Vizsla, hafi drepið fleiri ketti í hverfinu. Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri hjá dýraþjónustu Reykjavíkurborgar, segist hafa heyrt sögur sem ríma nokkurn veginn við frásögn konunnar, en ekki sé hægt að fullyrða um það.
„Það er búið að afhenda þá aftur eigendum sínum. Þetta er náttúrlega eitthvað sem getur gerst þegar hundar ganga lausir, svo ég tali nú ekki um þegar fleiri en einn ganga lausir saman, þá endar þetta stundum með svona ósköpum,“ segir Þorkell í samtali við mbl.is.
Dýraþjónustan og hundaeftirlit borgarinnar vinna eftir þeim verkferlum sem finna má í hundasamþykktum borgarinnar. Í grófum dráttum er það svo að hundaeftirlitið handsamar hundana, séu þeir á lausagöngu.
Því næst finna þeir eigendur hundanna og ræða við þá um stöðuna. Ganga úr skugga um að öll gjöld séu greidd og skráning sé með réttu móti. Því næst séu hundarnir bara afhentir eigendum á ný.
„Við höfum ekki forsendur til þess að halda hundum í einhverri fangageymslu. Að því gefnu að allt sé uppfyllt sem hundareglugerðin kveður á um þá höfum við í raun engin önnur úrræði.“
Hann bendir þó á að komi til þess að hundar bíti fólk, eða séu hættulegir fólki, þá sé hægt að senda þá í svokallað atferlismat. Þar sé metið hversu mikil hætta stafi af hundunum.
Það sem gerir eftirlitinu erfitt fyrir að vissu leyti er hversu aðstæðubundin málin eru hverju sinni. Þorkell minnir á að hundar séu í eðli sínu „hvorki góðir né slæmir, þetta snýst allt um aðstæðurnar sem þeir eru í“.
Vísar hann þar bæði til þess að slæmar aðstæður heima fyrir geti orsakað slæma og ógnandi tilburði hunda. Þó geti líka komið til þannig aðstæðna að gæfustu hundar séu settir í þær aðstæður að þeir „bíti frá sér“.
Spurður hvort umræddir hundar séu eins konar „góðkunningjar dýraþjónustunnar“, eins og lögreglan nefnir af og til í tilkynningum sínum um síbrotamenn, segir hann svo ekki vera. Hundarnir hafi ekki komið inn til þeirra áður en vissulega hafi hann og samstarfsfólk hans heyrt sögur af hundum sem reglulega ganga lausir og valda usla um hverfið.
„Þessum hundum svipar til þeirra sagna en það er engin leið fyrir okkur að fullyrða það þar sem við höfum ekki náð og raunar ekki séð þessa hunda sem sögurnar ganga um.“
Þorkell bendir þá einnig á að eigendur beri á endanum fulla ábyrgð á sínum dýrum. Erfitt sé fyrir dýraþjónustuna að aðhafast meira í málinu þar sem ekki er um að ræða hættu gagnvart fólki. Hann bendir á hið augljósa í þessu máli, að hundar sem eru lausir, og þá sér í lagi stórir hundar, eru gjarnir á að elta ketti.
Þrátt fyrir að ekki verði meira aðhafst í málinu af hálfu dýraþjónustunnar getur eigandi kattar, eða hvaða dýrs sem er, sem verður fyrir tjóni vegna annars dýrs, leitað réttar síns og mögulega átt rétt á bótum.
„Í því samhengi er vert að benda á að þeir sem greiða hundagjöld og eru með allt rétt skráð eru með svokallaða ábyrgðartryggingu gegn tjóni sem hundur kann að valda þriðja aðila.“
Ekki náðist í eiganda kattarins sem hundarnir drápu en óljóst er hvort eigandinn hyggst fara lengra með málið og tilkynna til lögreglu. Þorkell segir það í raun eina skrefið sem hægt sé að taka vilji eigandinn fara lengra með málið.