Sjálfsvígstíðni í faraldrinum liggur ekki fyrir

Alma sagði á fundinum að embættið væri með geðheilbrigðismál til …
Alma sagði á fundinum að embættið væri með geðheilbrigðismál til skoðunar í ljósi umræðunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alma Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi vegna kórónuveirunnar í dag að hún gæti ekki staðfest fjölda þeirra sem svipt hafa sig lífi á tímum faraldursins þar sem tölur ársins í ár lægju ekki fyrir.

Sjálfsvígstíðni ársins 2020 væri á pari við meðaltöl síðustu ára og landslæknisembættið væri með geðheilbrigðismál til skoðunar.

„Við birtum tölur um sjálfsvíg árlega. Tölurnar fyrir 2020 voru í hærri kantinum en ekki þær hæstu sem við höfum séð. Þær voru á pari við meðatöl síðustu ára,“ sagði Alma.

Lítið þýði verði til þess að tölurnar sveiflist mikið milli ára og því beri að horfa á tíu ára meðaltal.

„Við erum ekki komin með staðfestar tölur fyrir þetta ár,“ sagði Alma. Slíkt tæki nokkra mánuði.

Greint var frá því í sumar að 47 hefðu svipt sig lífi árið 2020. Í lok nóvember var greint frá því að samkvæmt bráðabirgðatölum hefðu 17 einstaklingar framið sjálfsvíg fyrstu sex mánuði árisins 2021.

Með geðheilbrigðismál til skoðunar

Fyrr í vikunni birtist grein á vef Vísis þar sem Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, og Sigrún Sigurðardóttir, dósent við HA og stjórnarkona í Geðhjálp, kölluðu eftir auknum aðgerðum í geðheilbrigðismálum í kjölfar heimsfaraldursins.

„Hvað veldur því að við sem samfélag tökum á faraldri sem hefur dregið samtals 37 til dauða á 22 mánuðum með þeim hætti sem við gerum? Á sama tíma hafa tæplega 100 manns tekið eigið líf,“ segir í greininni.

Alma sagði á fundinum, innt eftir viðbrögðum við greininni, að embættið væri með málefnið til skoðunar í ljósi umræðunnar.

„Það eru auðvitað í gangi ákveðnar forvarnaráætlanir og unnið markvisst að þeim,“ sagði hún. Þá hefði auknum fjármunum verið varið í geðheilbrigðismál frá því faraldurinn hófst.

Hún gæti þó ekki staðfest að tæplega 100 manns hefðu svipt sig lífi þar sem tala sjálfsvíga ársins í ár lægi ekki fyrir.

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein­hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218.

Píeta-sam­tök­in bjóða einnig uppá ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.  

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg­armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert