Andrés Ingi Jónsson og Björn Leví Gunnarsson, þingmenn Pírata, hafa báðir verið í fríi frá þingstörfum síðustu tvo daga. Björn Leví er í „fjölskyldufríi“ og Andrés Ingi var slappur á sunnudaginn. Þeir kölluðu báðir inn varaþingmenn en almennt tíðkast ekki að varaþingmenn séu kallaðir inn ef þingmenn forfallast til skemmri tíma.
Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir tók sæti sem varaþingmaður Björns Levís og Lenya Rún Taha Karim tók sæti Andrésar Inga, eins og mbl.is greindi áður frá.
Gunnhildur Fríða varð yngsti varaþingmaðurinn í sögu Íslands þegar hún tók við sætinu. Hún skipaði fjórða sæti á lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir síðustu kosningar og er því annar varaþingmaður kjördæmisins. Halldór Auðar Svansson er fyrsti varaþingmaður Pírata í kjördæminu.
Síðustu daga hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum greinst með Covid-19. Þingflokkur Pírata hefur enn sem komið er sloppið við smit í þessari bylgju Covid-19.
„Ég er bara í fjölskyldufríi. Kosningar, kjörbréfanefnd og fjárlagavinna ... þurfti bara að sjá krakkana mína eitthvað yfir jólin,“ segir Björn Leví í skriflegu svari til blaðamanns mbl.is.
Andrés Ingi segir í samtali við mbl.is að hann hafi verið með hita og hausverk á sunnudaginn og því ekki viljað „taka séns“ á þinglokum.