Tóku sér frí rétt fyrir „gellu-takeover“

Björn Leví og Andrés Ingi hafa verið í leyfi frá …
Björn Leví og Andrés Ingi hafa verið í leyfi frá þingstöfum síðustu tvo daga. Samsett mynd

Andrés Ingi Jónsson og Björn Leví Gunnarsson, þingmenn Pírata, hafa báðir verið í fríi frá þingstörfum síðustu tvo daga. Björn Leví er í „fjölskyldufríi“ og Andrés Ingi var slappur á sunnudaginn. Þeir kölluðu báðir inn varaþingmenn en almennt tíðkast ekki að varaþingmenn séu kallaðir inn ef þingmenn forfallast til skemmri tíma.

Gunn­hild­ur Fríða Hall­gríms­dótt­ir tók sæti sem varaþingmaður Björns Levís og Lenya Rún Taha Karim tók sæti Andrésar Inga, eins og mbl.is greindi áður frá. 

Gunnhildur Fríða varð yngsti varaþingmaður­inn í sögu Íslands þegar hún tók við sætinu. Hún skipaði fjórða sæti á lista Pírata í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir síðustu kosningar og er því annar varaþingmaður kjördæmisins. Halldór Auðar Svansson er fyrsti varaþingmaður Pírata í kjördæminu.

Síðustu daga hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum greinst með Covid-19. Þingflokkur Pírata hefur enn sem komið er sloppið við smit í þessari bylgju Covid-19.

„Ég er bara í fjölskyldufríi. Kosningar, kjörbréfanefnd og fjárlagavinna ... þurfti bara að sjá krakkana mína eitthvað yfir jólin,“ segir Björn Leví í skriflegu svari til blaðamanns mbl.is.

Andrés Ingi segir í samtali við mbl.is að hann hafi verið með hita og hausverk á sunnudaginn og því ekki viljað „taka séns“ á þinglokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert