Runólfur vill stytta einangrun í fimm daga

Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðasviðs og yf­ir­maður Covid-göngu­deild­ar Land­spít­al­ans.
Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðasviðs og yf­ir­maður Covid-göngu­deild­ar Land­spít­al­ans.

„Ég held að við eigum að hafa þetta eins stutt og kostur er. Þá erum við að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, myndi ég segja,“ segir Runólfur Pálsson, framkvæmdastjóri meðferðasviðs og yf­ir­maður Covid-göngu­deild­ar Land­spít­al­ans, í samtali við mbl.is.

„Eins og gögn virðast benda til, þá er mjög lítill hluti sem er enn smitandi eftir fimm daga,“ segir Runólfur, spurður hvort hann sé hlynntur því að einangrunartímabil smitaðra og einkennalausra verði stytt enn frekar, eða niður í fimm daga.

Fólk ítrekað sýnt starfsfólki dónaskap

Hann segir ákvörðun heilbrigðisráðherra um að stytta einangrun í sjö daga vera stórt skref fram á við þar sem álagið á deildinni hafi verið gríðarlegt.

Fjöldi símtala frá einkennalausu fólki sem vildi losna fyrr var að sögn Runólfs gífurlegur og erfitt fyrir starfsmenn að sinna öllum.

„Allur þessi hópur sem skiptir þúsundum vill losna úr einangrun vegna lítilla einkenna eða engra einkenna. Við ráðum ekki við það og fólk hefur verið mjög óánægt að fá ekki skjóta þjónustu með þetta,“ segir hann.

„Fólk hefur verið að sýna starfsfólkinu dónaskap ítrekað, þannig þetta var orðið óviðráðanlegt fyrir starfsfólk göngudeildarinnar,“ bætir hann við og bendir á að nú geti fólk sjálfvirkt losnað úr einangrun eftir sjö daga ef það er einkennalaust.

Snýst líka um störfin í landinu

Runólfur segir líkurnar á að einkennalaus einstaklingur smiti aðra mjög litlar, sérstaklega ef viðkomandi fari varlega, beri grímu og stundi persónubundnar sóttvarnir eftir fimm daga einangrun eins og er ráðlagt af sóttvarnastofnun Bandaríkjanna.

„Hver dagur sem viðkomandi er frá vinnu, sem sagt í einangrun eða sóttkví. Hann er mjög mikilvægur fyrir atvinnulífið. Þetta snýst ekki bara um störfin á Landspítala heldur snýst þetta líka um störfin í landinu,“ segir Runólfur og bætir því við að það megi búast við að smit séu miklu útbreiddari í samfélaginu heldur en greind tilfelli segja til um. Þar sem mikill fjöldi er einkennalaus. 

„Ef smit eru orðin það útbreidd í samfélaginu, þá hefur það mjög lítil áhrif að lengja einangrun hjá þeim. Ekki síst þar sem fólk er lítið smitandi eftir fimm daga, þá hefur þetta mjög lítil áhrif á faraldurinn í heild, myndi ég segja.“

Spítalinn átt í fullu fangi með grunnstarfsemi

Landspítalinn glímir við mikla manneklu og einnig er starfsfólk orðið þreytt og bugað eftir langdregið álag að sögn Runólfs.

„Þetta er fólk sem hefur verið í framlínu í næstum tvö ár án þess að geta unað sér hvíldar. Svo hefur bæst við núna fjöldi smita,“ segir hann og bætir við að um 140 starfsmenn Landspítalans séu í einangrun. 

Fólk einbeitir sér of mikið að innlögnum af völdum veirunnar og gleymir að taka inn í myndina heildarstarfsemi spítalans, að hans sögn. 

„Það er mikið að gera á öðrum vettvangi og það eru önnur viðfangsefni sem eru mjög krefjandi. Eftir því sem Covid tilfellum fjölgar, og ég tala nú ekki um eftir því sem við missum út meira af starfsfólki, þá er orðið mjög erfitt að sinna þessum verkefnum öllum sem eru brýn á spítalanum.

Miðað við stöðu spítalans þá hefur hann átt í fullu í fangi með grunnstarfsemina. Það var mannekla fyrir og svo bætist þetta við núna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert