Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, stendur enn við fyrri orð sín þess efnis að ákvörðun Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, við að veita undanþágur frá takmörkunum á Þorláksmessu. Þá segir hann ljóst að Jón Ívar Einarsson, prófessor við Harvard, sé eflaust fær læknir en ljóst sé að „hann sé ekkert sérstaklega læs á tölur“. Þá furðar hann sig á því að sérstök Covid-19 heilbrigðisstofnun sé ekki enn komin á laggirnar.
Spurður hvort undanþágurnar á Þorláksmessu séu skýringin fyrir þeim mikla fjölda smita sem nú greinast segir hann eflaust svo ekki vera. Mistök ráðherrans bjóði hins vegar upp á þessa spurningu.
„Hann leyfir þarna mönnum að ráfa blindfullum inn á bari og stórar samkomur. Ég er ekkert að segja að þetta skrifist beint á hann en þetta bíður upp á möguleikann að spyrja þessara spurninga,“ segir Kári í samtali við mbl.is.
Góð samvinna hafi verið milli sóttvarnalæknis og ríkisstjórnarinnar fram að þessu en síðan taki við nýr heilbrigðisráðherra sem „lætur það vera sitt fyrsta verk að ganga gegn tillögum sóttvarnalæknis“. Þetta segir hann búa til allra handa vitleysi, þar með talið að hægt sé mögulega að skrifa þessi smit á ráðherrann.
Bendir Kári þá einnig á að Willum hafi verið bent á að um mistök væru að ræða og því kjörið tækifæri til þess að biðjast afsökunar á því.
„Þjóðinni finnst „sjarmerandi“ þegar ráðamenn biðjast afsökunar. En hann gerði það ekki og sagði þetta í takt við það sem væri að gerast í samfélaginu sem það var einfaldlega ekki. Ég held því samt ekki fram að þetta hafi skipt sköpum, það verða öllum á mistök. En þetta var óskynsamlegt af þessum góða dreng.“
Veltir þá Kári einnig vöngum yfir því hvort þessi ákvörðun hafi verið tekin vegna þess að Willum hafi ráðið Björn Zoëga sem ráðgjafa sinn. En Björn hefur verið forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi undanfarin ár. Kári bendir á að Björn starfi í Svíþjóð og þar í landi hafi menn gert „öll þau mistök sem maður getur hugsað sér“ þegar kemur að því að takast á við veiruna.
Jón Ívar Einarsson, prófessor við Harvard háskólann, birti á dögunum pistil á Innherja þar sem hann lagði til sex nýjar leiðir í baráttunni við veiruna. Meginstef pistilsins var á þá leið að slá þurfi nýjan takt í baráttuna enda ljóst að við náum ekki að „bólusetja okkur út úr vandanum“.
Leggur hann meðal annars til að stofnuð verði sérstök Covid-19 sjúkrastofnun og að almenningi verði betur treyst og lagðar verði niður „handahófskenndar, kostnaðarsamar og oft tilgangslausar“ sóttvarnaaðgerðir.
Kári er þá ekki sáttur með grein Jóns sem hann segir „ekki jákvætt framlag í umræðuna“.
„Þarna vitnar hann á afskaplega grunnhygginn, yfirborðslegan og óheiðarlegan hátt í greinar sem fjalla um áhrif frá bólusetningum og er af þessu alveg ljóst að Jón Ívar Einarsson er ekkert sérstaklega læs á tölur.“
Kári tekur þó fram að hann hafi ekki heyrt neitt annað um Jón en að hann sé „feyki góður handverksmaður og fær skurðlæknir“ en hann sé þó bersýnilega ekki læs á tölur og sé óvarkár um hvernig hann tjáir sig því „hann er að tjá sig um málefni sem hann ræður ekki við“.
Það sem Jón Ívar fjallar um í pistli sínum lagði Kári sjálfur til við upphaf faraldurs, þ.e. stofnun sérstakrar Covid-19 sjúkrastofnunar. Segist hann þá helst hissa á því að ekki sé búið að setja á laggirnar slíka stofnun á þessum tveimur árum baráttan hefur geisað hér á landi.
Þörfin sé til staðar á stofnun sem býr yfir fólki sem sé læst á tölur og geti sett saman góð og áreiðanleg módel og haldið utan um þetta á skynsamlegan hátt. Svo ekki sé minnst á stofnun sem býr yfir getu til þess að greina sýni.
„Það er ekki endalaust hægt að treysta á eitthvað meðvirkt einkafyrirtæki úti í bæ sem getur tekið þetta að sér.“
Hann segist ekki vita betur en að vilji sé hjá stjórnvöldum að gera þetta en segir það einnig rétt hjá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að það þurfi meira en bara peninga inn í kerfið. Ítrekar Kári þó að starfsfólk spítalans sé gífurlega gott og fært fólk. Um sé að ræða stjórnunarvanda og þá fremur hjá heilbrigðiskerfinu í heild sinni heldur en hjá spítalanum einum og sér.