Líkur á fleiri innlögnum aukast

Álagið hefur aldrei verið jafn mikið á göngudeildinni á Landspítala …
Álagið hefur aldrei verið jafn mikið á göngudeildinni á Landspítala vegna fjölda smitaðra.

Fjöldi þeirra sem teljast „gulir“ sjúklingar samkvæmt litakóðunarkerfi Covid-19 göngudeildarinnar var á mánudag 105 einstaklingar. Nú eru þeir 269 talsins og þar af 59 börn. Búið er að bóka 22 einstaklinga í dag til mats og meðferðar á spítalanum og gæti sú talað hækkað þegar líður á daginn.

Runólfur Pálsson, yfirlæknir á Covid-19 göngudeildinni, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Þá bendir hann einnig á að rauðir sjúklingar séu þrír og að af þeim 6.917 sem nú eru í umsjá göngudeildar séu 1.556 þeirra börn.

Hann segir innlögnum ekki hafa fjölgað mikið en mögulega segi það ekki alla söguna. Fyrirkomulagið byggi á göngudeildinni og því sé verið að „dempa“ innlagnir eins mikið og kostur er með mati á alvarleika veikinda sjúklinganna.

Ljóst er þó að líkur eru á því að innlögnum fjölgi næstu daga og það jafnvel strax í dag í ljósi þessarar aukningar á „gulum“ sjúklingum og að 22 eigi bókaðan tíma í mat og meðferð í dag.

Landspítalinn hefur um nokkurt skeið flokkað sjúklinga í þrjá hópa, græna, gula og rauða. Vísa litirnir þá til alvarleika einkenna sem gætir hjá smituðum einstaklingum.

Runólfur Pálsson, yfirlæknir á covid-19 göngudeild Landspítalans.
Runólfur Pálsson, yfirlæknir á covid-19 göngudeild Landspítalans. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka