Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir kjarna vandans í íslenskum stjórnmálum vera að hluta til áberandi virðingarleysi stjórnvalda gagnvart aðstæðum fólks. Sérstaklega þeirra sem eiga bágt.
„Sumum stjórnmálamönnum virðist hreinlega fyrirmunað að setja sig í spor annarra. Þeim er tamt að líta bara í eina átt og snúa blinda auganu að þeim sem virkilega þurfa á aðstoð að halda. Fólki með vonir og þrár um betra og áhyggjulausara líf. Vonir um að þurfa ekki lengur að bíða eftir réttlætinu. Að vera ekki líkt við lífvana súlurit eða vísvitandi villandi excel skjöl. Það er forgangsverkefni að koma þessu fólki til hjálpar og hrífa það úr köldum faðmi ómanneskjulegs og skilningsvana kerfis,” segir Inga Sæland í áramótgrein í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir Flokk fólksins ekki þykjast ætla að gera allt fyrir alla heldur einbeiti hann sér að frumskyldum gagnvart þeim sem þurfi mest á því að halda að eiga öflugan málsvara á þingi. Málin séu hvorki flækt með fagurgala fyrir kosningar né hlaupist frá loforðum að þeim loknum.
Á síðasta kjörtímabili hafi enginn flokkur barist af jafn mikilli einurð fyrir auknum réttindum öryrkja, eldra fólks og fólks á lægstu laununum og flokkur fólksins.
„Við lögðum fram tugi þingmála sem miða að því að bjarga almannatryggingaþegum úr fátæktargildrunni sem stjórnvöld hafa búið þeim,“ segir Inga. Strax á nýhöfnu kjörtímabili hafi verið lögð enn fleiri slík mál.
Það sé svo sérstakt fagnaðarefni að baráttumál flokksins fyrir jólabónusi handa öryrkjum, skatta og skerðingalaust, hafi verið samþykkt á Alþingi rétt fyrir jól. Það sé hins vegar sárt að sambærilegur jólabónus fyrir þrjár neðstu tekjutíundir eldra fólk hafi verið hafnað.
Inga kemur einnig inn á að Flokkur fólksins leggi nú í annað sinn fram frumvarp um bann við blóðmerarhaldi. En þar sé meðal annars gert ráð fyrir því að bændur sem hafi haft tekjur hafi starfseminni fái tjónið bætt.
„Það er löggjafans að stöðva þessa óverjandi illu meðferð á fylfullum hryssum. Hér er um augljóst brot á dýravelferð að ræða og okkur sem þjóð til ævarandi minnkunar. Ég trúi á manngæskuna og að við flest látum okkur annt um velferð dýra. Þannig muni árið 2022 verða ár mannúðar þar sem alþingismenn stöðva ómannúðarlega meðferð á fylfullum hryssum með algjöru banni á blóðmerahaldi.“