Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar var fengin í það verkefni í dag að sprengja upp vindmyllu sem skemmdist í bruna á nýársdag í Þykkvabæ. Ekki hefur tekist að fella vindmylluna í fimm tilraunum. Sprengjusveit Gæslunnar er búin að vera svæðinu í nístingskulda frá því í hádeginu.
Fréttin hefur verið uppfærð eftir að fimmta tilraun misheppnaðist.
Ásgeir Marteinsson, stjórnarformaður Háblæs og umsjónarmaður vindmyllunnar, segir mikilvægt að vindmyllan verði felld af öryggisástæðum. Spaðar vindmyllunnar snúast enn eftir brunann.
„Spaðarnir á henni snúast, hún er ekki í öruggu ástandi. Þeir gætu farið að snúast mjög hratt í roki og jafnvel brotnað úr henni.“
„Það er ekki hægt að fara upp til þess að stoppa spaðanna, því allt er brunnið þarna uppi," segir Ásgeir í samtali við mbl.is.
Tvær vindmyllur standa í Þykkvabæ og hafa þær báðar brunnið, önnur á nýársdag og hin árið 2017. Ásgeir segir ekki nauðsynlegt að sprengja hina þar sem spaðar hennar snúast ekki.
Spurður hvað olli brunanum á nýársdag telur Ásgeir það líklegt að bremsan í vindmyllunni hafi gefið sig, spaðarnir farið að snúast ógnarhratt út af roki á svæðinu og síðan hafi kviknað í.
„Ég held að það hafi gerst af því að þeim hafi ekki verið sinnt, þær hafa staðið kyrrar í mörg ár,“ segir Ásgeir einnig og bætti því við að ekki sé algengt að það kvikni í vindmyllum.
Áform eru um að tvær nýjar vindmyllur komi í stað þeirra eyðilögðu að sögn Ásgeirs.