Athygli hefur vakið í dag hvernig hvítur reykur stígur upp frá hraunbreiðunni í Fagradalsfjalli, þar sem hún steypist ofan í Nátthaga við suðurenda fjallsins.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni eru þó engin merki um að ný kvika sé tekin að streyma upp á yfirborðið.
Hér að neðan má sjá streymi einnar af vefmyndavélum mbl.is, en henni hefur nú verið beint ofan í Nátthaga.
„Á svona köldum dögum þá sést öll gufa miklu betur, þannig að það virkar eins og það sé eitthvað að gerast þegar það er ekki endilega raunin,“ segir náttúruvárfræðingur á vakt hjá Veðurstofunni.
Frost hefur mælst á bilinu 4-5,5 gráður í veðurathugunarstöðinni á Fagradalsfjalli í dag.