Guðmundur Jónatan Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, mun gefa kost á sér til formennsku í stéttarfélaginu Eflingu í kosningu meðal félagsfólks sem fer fram þann 15. febrúar næstkomandi.
Þetta kemur fram í framboðstilkynningu Guðmundar en Vísir greindi fyrst frá.
Guðmundur hefur setið í stjórn Eflingar allt frá árinu 2018 og starfar nú hjá verktakafyrirtækinu Faxaverk sem vörubílstjóri ásamt annarri vélavinnu.
Uppi varð fótur og fit hjá félaginu í október síðastliðnum þegar Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér sem formaður Eflingar en í kjölfarið var Guðmundur fenginn í Kastljósið á Rúv. Í kjölfarið komu upp á yfirborðið deilur innan félagsins sem virðast hafa átt sér nokkurn aðdraganda.