Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er áhyggjufullur yfir stöðunni í faraldrinum og segir að allir ættu í raun að hafa áhyggjur. Sex til sjö innlagnir á Landspítala á dag vegna Covid sé of mikið. Spálíkan sem geri ráð fyrir að minnsta kosti 20 Covid-smituðum á gjörgæslu á næstu vikum sé að raungerast og það komi til með að skapa mikil vandræði. Til þessa þátta hafi verið horft til við gerð nýs minnisblaðs.
„Spálíkanið er ekki glæsilegt, það spáir því að líklega verði eftir einhverjar vikur um 20 manns inniliggjandi á gjörgæslunni, sem er mjög mikið. Það mun skapa gríðarleg vandamál fyrir spítalann og aðra sjúklingahópa. Þetta er líkleg spá. Svo væru jafnvel fleiri, upp í 30 til 40 með svartsýnustu spá en aðeins færri í bjartsýnni spá. Mér sýnist þetta vera bara að raungerast. Þetta er hægt og bítandi að fara í þennan farveg,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
37 liggja nú á Landspítala smitaðir af Covid-19. Átta eru á gjörgæslu, þar af sex í öndunarvél.
Talað hefur verið um að 0,7 prósent smitaðra þurfi að leggjast inn á sjúkrahús, en það eru tölur frá Danmörku. Sama virðist vera upp á teningnum hér á landi. Þórólfur horfði til þessarar stöðu við gerð minnisblaðsins, jafnvel þó tillögurnar verði ekki líklegar til vinsælda.
„Jú, ég horfi á þetta og er í samráði við Landspítalann og fleiri. Mín skylda er að vekja athygli og koma með tillögur til ráðherra um þetta og reyni að standa mig í því eins og ég hef gert áður. Það kann vel að vera að það séu ekki óskatillögur margra en það þýðir ekki að tala um það. Við erum að lenda í hálfgerðum vandræðum og við verðum að horfa á þetta út frá þeim sjónarhóli.“
Hann segir það þó enn standa til að létta á sóttkví hjá þríbólusettum og útfærsla á þeirri hugmynd sé í minnisblaðinu. Spurður hvort það sé mögulega óráðlagt á þessum tímapunkti segir hann:
„Ég veit það ekki alveg, ég er kannski ekki endilega viss um það vegna þess að við erum með ákveðnar leiðbeiningar hvað það varðar. Við verðum líka náttúrulega að huga að því að einhvern veginn verður þetta samfélag að ganga. Það þarf einhver að vinna vinnuna í fyrirtækjum og ýmissi starfsemi. Við þurfum einhvern veginn að sigla bil beggja í þessu. Ég held að það sé minnsta áhættan tekin með því að taka þennan hóp út fyrir sviga.“
1.1175 smit greindust innanlands í gær en aðeins færri daginn þar á undan. Smittölur síðustu daga hafa verið svipaðar, rétt yfir þúsund smitum. Telst faraldurinn því vera í línulegum vexti, að sögn Þórólfs.
„Við erum alls ekki að fara niður. Maður var að vonast til að þetta rót í kringum jól og áramót hefði skilað einhverju og síðan værum viðað fara niður aftur, en það er ekki að sjá í tölunum núna. Við erum bara nokkurn veginn á sama stað og það er svo sannarlega áhyggjuefni, líka þegar við sjáum hver margir eru að leggjast inn á spítala, sex til sjö manns á dag. Það er bara allof mikið með Covid, og kannski tveir að útskrifast. Það er mjög lítið.“
Þannig þú hefur áhyggjur?
„Jájá og ég held að það eigi allir að hafa áhyggjur, vegna þess að eins og ég hef sagt áður, þetta snýst ekki bara um Landspítalann. Þetta snýst um heilbrigðiskerfið allt, sjúklingahópa, þetta snýst um starfsemi ýmissa fyrirtækja sem eru nú þegar komin með neyðarkall út af veikindum starfsmanna. Þetta er bara mjög víða og þegar svo er og ef maður hefur ekki áhyggjur, þá er maður að hugsa um eitthvað annað held ég.“