Hópsmit er komið upp á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi. Jórunn María Ólafsdóttir, forstöðumaður hjúkrunarsviðs heimilisins, segir í samtali við mbl.is að óvissa sé um tölu smitaðra.
Starfsmaður greindist smitaður á miðvikudag og í kjölfarið var lokað fyrir allar heimsóknir og heimilismenn skimaðir.
Tvö sýni sýndu jákvæða niðurstöðu og hefur annað þeirra verið staðfest sem smit. Um er að ræða fyrsta smitaða heimilismanninn á Brákarhlíð síðan faraldurinn hófst.
Jórunn segir að ljóst sé að þau séu fleiri, enn sé um nokkur vafasvör að ræða. Hún segir að þeir sem hafa greinst hafi lítil einkenni eða séu einkennalausir.
Jórunn segir að aðrir heimilismenn taki smitunum með stóískri ró, „líkt og þessi kynslóð gerir en auðvitað er öllum brugðið“.