Lakari lausn með tilliti til umferðaröryggis

Breiðholtsbraut. Umferðin mun tefjast vegna nýrra umferðarljósa.
Breiðholtsbraut. Umferðin mun tefjast vegna nýrra umferðarljósa. mbl.is/Árni Sæberg

Sérfræðingar telja að mislæg gatnamót á Arnarnesvegi og Breiðholtsbraut séu ákjósanlegri en sú lausn sem valin hefur verið og samkomulag er um á milli sveitarfélaganna. Breytingar á deiliskipulagi sem gera ráð fyrir því að Arnarnesvegur fari yfir Breiðholtsbraut á brú og gatnamótin inn á Breiðholtsbraut aftur á ljósastýrðum gatnamótum verða auglýstar á næstunni.

Borgarráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi þriðja áfanga Arnarnesvegar og bæjarráð Kópavogsbæjar hefur vísað sams konar tillögu, sem skipulagsráð bæjarins samþykkti, til afgreiðslu bæjarstjórnar. Borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Kópavogs munu afgreiða tillöguna á næstunni.

Kynning á deiliskipulagstillögu tekur sex vikur og gefst íbúum kostur á að gera athugasemdir. Jafnframt er unnið að verkhönnun og verður hægt að bjóða framkvæmdina út þegar deiliskipulag er klárt.

Graf/mbl.is

Mislæg gatnamót talin betri

Gert er ráð fyrir framkvæmdinni í samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi þriðji og síðasti áfangi Arnarnesvegar liggur frá Rjúpnavegi þar sem núverandi Arnarnesvegur endar og að Breiðholtsbraut. Gert er ráð fyrir hringtorgum, undirgöngum og göngubrúm.

Samkvæmt samkomulagi borgarstjóra og bæjarstjórans í Kópavogi var fallið frá fyrri áformum um mislæg gatnamót á Breiðholtsbraut. Í staðinn verða fjórar akgreinar á brú sem tengjast brautinni á ljósastýrðum gatnamótum. Þessi breyting hefur verið umdeild. Í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemur fram sú skoðun að besta útfærslan hafi ekki verið valin, heldur farið í lausn sem kosti nánast jafn mikið en skili minni árangri. Vitnað er til niðurstaðna í skýrslu Eflu og Vegagerðarinnar frá september 2020 þar sem fram kemur það álit að með tilliti til umferðaröryggis, afkasta og kostnaðar séu mislæg gatnamót ákjósanlegust.

Sama niðurstaða kom fram í niðurstöðum rýnihóps sem Vegagerðin fékk til að meta umferðaröryggi vegna endurskoðunar á fyrirkomulagi gatnamótanna. Skýrslan er frá janúar 2021. Þar segir að lausn 3 (mislæg gatnamót) sé mun betri með tilliti til umferðaröryggis. Sú lausn að aðskilja akstursstefnur, losna við stöðvun umferðar á umferðarljósum og losna við vinstri beygjur þar sem þvera þurfi gagnstæða umferðarstrauma, feli í sér mun öruggara umferðarmannvirki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert