Safna bárujárni eftir að hlið fjárhúss fauk

Fjárhúsið leit svona út eftir lægðina sem reið yfir landið …
Fjárhúsið leit svona út eftir lægðina sem reið yfir landið aðfaranótt fimmtudags. Ljósmynd/Aðsend

Fjárhús Sigrúnar Hörpu Harðardóttur fór afar illa út úr óveðrinu sem reið yfir á fimmtudag en heil hlið hússins rifnaði af. Hún auglýsti í gær eftir bárujárni til að lappa upp á húsið en fékk bæði byggingaefni og vinnuafl.

Deginum áður en óveðrið skall á bauðst Ómar nokkur í Bjarmalandi til þess að taka við sauðfénu en þá var vitað í hvað stefndi. „Við vissum að það kæmi eitthvað flóð en við vissum ekki hve slæmt það yrði,“ segir Sigrún í samtali við mbl.is.

Aldargamalt fjárhús

Fjárhúsið var reist af langafa Sigrúnar fyirr ríflega hundrað árum síðan en Sigrún segir útreiðina sem húsið fékk á fimmtudag þá verstu sem hún muni eftir:

„Við lentum í þessu fyrir tveimur árum en það var ekki eins slæmt. Þá var það bara ein hurð sem fór en núna var það öll hliðin.“

Blessunarlega voru allar rollurnar komnar í öruggt skjól í Bjarmalandi áður en veðrið skall á.

„Annars væri ekki spurt um hvað framhaldið væri.“

Stór hluti hússins fauk af húsinu í óveðrinu en sauðféð …
Stór hluti hússins fauk af húsinu í óveðrinu en sauðféð var komið í öruggt skjól deginum áður. Ljósmynd/Aðsend

Bauðst meiri hjálp en hún getur nýtt

Þegar Sigrún sá eyðilegginguna varð henni ljóst að það þyrfti að byggja alla hliðina upp á nýtt. Til þess þarf nokkuð magn af bárujárni og byggingaefni. Hún leitaði á náðir samborgara sinna til að lýsa eftir því en viðbrögðin fóru fram úr hennar björtustu vonum.

„Við erum búin að fá svo rosalega mikla hjálp, bæði frá fjölskyldunni og svo fólki utan úr bæ sem hefur boðist til þess að koma upp í fjárhús til þess að hjálpa.“ 

Bauðst aðstoð úr mörgum áttum

Sigrún telur sig vera komin með nóg af bárujárni í bili og þó standi henni ennþá meira járn til boða.

„Við náðum í helling af bárujárni í dag sem við fengum gefins. Við vonum bara að það sé nóg sem við erum með núna. Annars eru margir búnir að bjóða okkur meira. Það er búið að bjóða okkur alveg helling sem við getum síðan bara sótt ef við þurfum.“

Elsti hluti hússins sem fór í veðrinu

Sá hluti hússins sem fór í veðrinu er að sögn Sigrúnar einn elsti hluti hússins sem var þá byggður fyrir um 100 árum síðan af langafa Sigrúnar.

Verður sá hluti þá ekki bara í betra standi eftir viðgerðina?

„Ég held það. Þetta var mikið af gömlum trébútum sem höfðu verið frá upphafi og við erum að setja allt nýtt á þá hlið.“

Innan úr fjárhúsinu sem Sigrún telur að verði tilbúið til …
Innan úr fjárhúsinu sem Sigrún telur að verði tilbúið til notkunar fyrir sauðburð í vor. Ljósmynd/Aðsend

Sakna varnagarðs sem Grindavík fjarlægði

Fjárhúsið stendur um 20 metrum frá fjöruborðinu og er því einstaklega illa útsett fyrir ofsaveðrum og vindum. Sigrún segir að áður hafi varnargarður varið húsið fyrir ágangi sjávar en nú standi húsið alveg óvarið.

„Grindvíkurbær tók hann niður, ég veit ekki hvers vegna það var gert en við ætlum að fara fram á það að hann verði reistur aftur.“

Fjölskyldan mun funda með fulltrúum sveitarfélagsins á morgun en Sigrún bindur vonir við að Grindavík fallist á óskir fjölskyldunnar svo uppgert fjárhúsið fái aftur skjól.

Búin að gera ráðstafanir fyrir kvöldið

Veðurspár gera ráð fyrir annarri bylgju óveðurs í kvöld en Sigrún segist vera búin að grípa til einhverra rástafana með því að loka fyrir hliðina.

„Ég vona að það verði bara ekki aftur flóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert