Getur leitt til fjölda innlagna á Barnaspítala

Barnaspítali Hringsins.
Barnaspítali Hringsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við stöðu kórónuveirufaraldursins núna, er næsta víst að flestir sem ekki eru bólusettir muni smitast á næstu mánuðum. Getur það leitt til fjölda innlagna á Barnaspítala Hringsins vegna Covid-19.

Þetta kemur fram í áliti Ásgeirs Haraldssonar og Valtýs Stefánssonar Thors, lækna á Barnaspítala Hringsins. Þeir mæla með bólusetningum barna, fimm ára og eldri.

Fyrir ári síðan birtu þeir álit sitt á bólusetningum barna á síðu spítalans og núna hefur skjalið sem þeir gáfu út verið uppfært, að því er kemur fram í tilkynningu. 

„Skynsamlegar og mikilvægar“

„Á því ári sem liðið er hafa birst niðurstöður rannsókna sem sýnt hafa góða virkni og öryggi bóluefnanna hjá börnum. Þá hefur faraldurinn tekið nokkrum breytingum á þeim 12 mánuðum sem liðnir eru,“ segir í áliti læknanna.

„Það er skoðun okkar nú að bólusetningar barna, fimm ára og eldri séu bæði skynsamlegar og mikilvægar.“

Fram kemur í áliti þeirra að ný afbrigði kórónuveirunnar smiti börn meira en fyrri afbrigði. Þó að börn smitist enn þá minna en fullorðnir og verði síður alvarlega veik sé staðan breytt. Ný afbrigði veirunnar leggist á börn og þau geti vissulega glímt við umtalsverð einkenni og orðið alvarlega veik. Einkenni Covid-19 hjá börnum geti því verið alvarleg.

Rannsóknir sýni einnig að langtímaeinkenni eftir sýkingu komi líka fyrir hjá börnum eins og unglingum og fullorðnum.

Alvarlegar aukaverkanir mjög sjaldgæfar

„Rannsóknir á virkni bóluefnisins hjá börnum liggja fyrir. Börn eldri en fimm ára svara bóluefninu vel og mynda góð mótefni, a.m.k. sambærileg við mótefnamyndun unglinga þrátt fyrir að skammturinn sé þriðjungur af því sem fullorðnir og unglingar fá,“ segir í álitinu.

„Rannsóknir hafa sýnt að alvarlegar aukaverkanir bóluefna gegn Covid-19 hjá börnum eru mjög sjaldgæfar. Aukaverkanir bólusetningarinnar eru oft af sama toga og einkenni Covid-19 sjúkdómsins – en miklu sjaldgæfari og minni. Algengar aukaverkanir s.s. hiti og eymsli á stungustað eru svipaðar og við notkun annarra bóluefna hjá börnum.

Læknarnir nefna einnig að ekki skuli vanmeta þá miklu og endurteknu truflun á skólastarfi sem sé börnum án efa erfitt. Bólusetningar geti dregið úr þörf á sóttkví og einangrun í þessum hópi grunnskólabarna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert