Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði áherslu á mikilvægi atvinnulífsins í baráttunni gegn loftslagsvánni á norrænum fundi loftslagsmál sem fór fram með rafrænum hætti í gær.
Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.
Á fundinum voru niðurstöður nýútgefinnar skýrslu ræddar sem byggir á svörum forstjóra 40 fyrirtækja um stefnu og viðhorf þeirra til loftslagsmála. Var sérstök áhersla lögð á hvernig best sé að haga samvinnu fyrirtækja og stjórnvalda í skýrslunni.
Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar telja forstjórarnir loftslagsvá alvarlega ógn sem kalli á skýr og metnaðarfull markmið stjórnvalda og grænar lausnir. Meirihluti fyrirtækjanna hafa sett sér loftslagsviðmið og geti boðið upp á margar loftslagsvænar lausnir, sem hægt er að nýta í heimalöndum þeirra jafnt sem á heimsvísu, en mörg þeirra eru með viðamikla alþjóðlega starfsemi.
Guðlaugur Þór sat fundinn fyrir Íslands hönd en auk hans voru ráðherrar loftslagsmála í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Voru þeir allir sammála um mikilvægi samtals og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs varðandi stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum, að því er fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins.
Á fundinum vakti Guðlaugur Þór athygli á að ný ríkisstjórn hefði sett fram hert markmið í loftslagsmálum í lok árs 2021.