Bjartsýnustu spár spítalans virðast ganga eftir

Starfsmenn á gjörgæsludeild Landspítala.
Starfsmenn á gjörgæsludeild Landspítala. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Staða innlagna á Landspítala vegna kórónuveirunnar er mun nær bjartsýnustu spám en svartsýnustu, eins og staðan er núna, ef litið er á tölfræði innlagna og spálíkön um innlagnir næstu daga. 

Það kemur heim og saman við það sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sögðu á þriðjudag, þegar tilkynnt var um áframhald sóttvarnaaðgerða.

Spálíkan Landspítala frá því á föstudag gerir ráð fyrir að um 52 verði á sjúkrahúsi vegna veirunnar 20. janúar næstkomandi. Er þá miðað við 0,5% innlagnahlutfall og er það bjartsýnasta spá. 

Líklegasta spáin er þó að um 67 manns liggi inni fyrir 20. janúar og svartsýnasta spá gerir ráð fyrir að 83 muni liggja inni á spítala vegna veirunnar 20. janúar.

Blessunarlega er staðan þó mest í líkingu við bjartsýnustu spár, eins og áður sagði. 

Staðan á gjörgæslu einnig nær bjartsýnustu spám

Hvað gjörgæslu varðar gera bjartsýnustu spár ráð fyrir því að 10 liggi á gjörgæslu Landspítala þann 20 janúar. Alls liggja nú sex á gjörgæslu og fjórir í öndunarvél. 

Líklegasta spá spálíkans Landspítala gerir ráð fyrir að þar liggi 18 sjúklingar 20. janúar og svartsýnasta spá gerir ráð fyrir að 27 verði á gjörgæslu 20. janúar. 

Allar þessar spár miða við að innlagnahlutfall af heildarsmitum í samfélaginu sé 0,5% en áður lék vafi á hvort ætti að miða við 0,5% eða 0,7%. Í upplýsingum frá spítalanum segir að óhætt sé að miða frekar við lægra hlutfallið, sem gefur bjartari mynd. 

Ítarlega tölfræði um stöðu Covid-veikra má nú nálgast á vef …
Ítarlega tölfræði um stöðu Covid-veikra má nú nálgast á vef Landspítala. mbl.is/Jón Pétur

Ómíkron-smit ekki hættuleg nema hjá viðkvæmum hópum

Í svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is segir svo að til þess að staðan færðist nær því sem svartsýnustu spár gera ráð fyrir, þyrftu smittölur að hækka. Og ekki bara það, heldur þyrftu hópsmit að koma upp meðal viðkvæmra aðila í samfélaginu eins og þeirra sem eru ónæmisbældir eða á líftæknilyfjum, svo dæmi séu tekin. Komi upp hópsmit meðal slíkra hópa er líklegra að innlögnum fjölgi. 

Þá segja sérfræðingar spítalans að vegna þess hver Ómíkron-afbrigðið er vægt mun innlögnum ekki fjölga þótt Ómíkron-smitum fjölgi. Innlögnum fjölgi frekar ef smit breiðist út til þeirra sem eru viðkvæmir fyrir.

Svo er að öllum líkindum ólíklegra að þeir sem greinast með Ómíkron og þurfi á innlögn að halda, rati alla leið á gjörgæslu. Því væri möguleg sviðsmynd næstu daga og vikna að fólki fjölgi á sjúkrahúsi með veiruna, en fækki á gjörgæslu. 

Með hliðsjón af öllu þessu voru sérfræðingar spítalans spurðir hvað þeim þætti um að ráðist yrði í afléttingar á sóttvarnatakmörkunum og voru þeir sammála um að það væri ekki ráðlegt. Ef takmörkunum yrði aflétt að einhverju leyti væri líklegra að smit kæmist til viðkvæmra hópa og þannig myndi innlögnum fjölga, eitthvað sem sérfræðingarnir segja að spítalinn megi ekki við. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert