Sprengingin sem varð við neðanjarðareldgosið í eldstöðinni við Tonga-eyjar í nótt náði að hrista veðrahvörfin og heiðarhvolfið svo um munaði og barst þrýstibylgja á hljóðhraða um allan hnöttinn.
Kom bylgjan fram á loftþrýstimælum um allan heim, klukkan hálf sex síðdegis hér á Íslandi, um þrettán og hálfri klukkustund eftir að sprengingin varð.
Þetta kemur fram í færslu Trausta Jónssonar veðurfræðings sem hann skrifar á mbl.is-bloggið sitt.
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu íslands, setti þá inn mynd á Twitter-síðu sína þar sem sjá má ummerki bylgjunnar.
We are observing a seismic signal across our network in Iceland which I suspect is the shockwave from #Tongaeruption .. any other observatories seeing a similar signal? pic.twitter.com/04LlQeks22
— Kristín Jónsdóttir (@krjonsdottir) January 15, 2022
Þar segir: „Við fylgjumst með jarðskjálftavirkni hjá okkur á Íslandi sem mig grunar að stafi af höggbylgju frá eldgosinu í Tonga.“