„Er hæstvirtur fjármálaráðherra í rauninni óþarfur“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikil óánægja var á meðal stjórnarandstöðunnar á Alþingi í dag vegna fjarveru Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra en fyrsta mál á dagskrá var frumvarp ráðherrans um að fresta staðgreiðslu skatta og greiðslu trygg­inga­gjalds til stuðnings fyrirtækja í veitingarekstri. 

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að um væri að ræða risastórt mál sem varðaði efnahag hluta þjóðarinnar og því væri það ótrúlegt að fjármála- og efnahagsráðherra væri ekki viðstaddur.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Því spurði Helga Birgi Ármannsson forseta þingsins hvað valdi fjarveru Bjarna. „Er hæstvirtur fjármálaráðherra í rauninni óþarfur þegar kemur að rekstri ríkissjóðs.“

Birgir svaraði þá að Bjarni væri erlendis. 

„Mig langar að rifja upp að fyrir 54 mínútum minnti forseti okkur á að fjarvistarskrá lægju frammi eins og alltaf er gert við upphaf þingfundar. Ég prentaði hana út. Á henni er eitt nafn. Það er ekki nafn Bjarna Benediktssonar hæstvirts fjármálaráðherra,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, í kjölfar svars Birgis.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andrés spurði því Birgi hvernig standi á því að fjarvistarskráin sé ekki rétt. Þá benti hann á að dagsetning þingstarfa hefði legið fyrir frá desemberlokum og því ættu þingmenn rétt á að vita hvaða erindi Bjarni ætti erlendis. 

„Ef ráðherrann er í fríi þá er það móðgun,“ sagði Andrés og benti Birgir þá á að staðgengill fjármála- og efnahagsráðherra væri viðstaddur og að hann vissi ekki um erindi Bjarna erlendis.

„Mér finnst það bagalegt að ráðherrar almennt sýni þinginu ekki meiri virðingu,“ sagði Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert