Staðan á Landspítalanum er að sumu leyti betri en hún hefur verið en að öðru leyti er hún þyngri. „Þetta er hverfult ástand,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans.
Færri liggja inni á spítalanum og á gjörgæslu en fleiri nýir hafa verið lagðir inn í dag og undanfarna daga. Skoðunum á göngudeild hefur jafnframt fjölgað.
Már segir mjög marga utanaðkomandi starfsmenn enn vera að ganga í störf á spítalanum og nefnir einnig að spítalinn hafi lokið við að flytja ríflega 30 sjúklinga á aðrar stofnanir úti á landi.
Hann segir hlutfall innlagna á bráðamóttökuna vera nokkuð jafnt og koma þangað um 26 til 36 fullorðnir sjúklingar á hverjum degi. „Spítalinn er í jafnvægi en með öllum þessum tilkostnaði í mönnun og verkefnum,“ greinir Már frá.
Þrátt fyrir að spítalinn sé núna í jafnvægi varðandi mönnun segir hann að það gæti þess vegna breyst seinnipartinn í dag. Til að mynda voru um 140 starfsmenn í einangrun fyrir tveimur til þremur dögum en núna eru þeir 184.
Spurður út í stöðuna á Landakoti þar sem sjö smit greindust um helgina segir hann að beðið sé eftir einhverjum skimunarsýnum. „En það hljómar eins og við séum að komast fyrir vind í þeim efnum.“ Hann kveðst ekki hafa upplýsingar um líðan fólksins sem greindist.
Hvað rakningu smitanna varðar segir hann að svo virðist sem um marga atburði sé að ræða sem tengist sjúklingum eða starfsfólki. Þegar svona mikið sé um smit úti í samfélaginu gildi það sama um Landspítalann og önnur fyrirtæki að þeir sem komi þangað inn geti borið veiruna með sér.
Farsóttarnefnd Landspítalans sagði í gær nýtt spálíkan Háskóla Íslands og spítalans gefa fyrirheit um betri tíð en fyrri líkön. Teikn séu á lofti um að Ómíkron-afbrigðið valdi minni veikindum og leiði til færri gjörgæsluinnlagna. Már stígur engu að síður varlega til jarðar og tekur fram að spáin byggir á sögulegum gögnum fram að miðnætti dagsins á undan að gefnum tilteknum forsendum og að þær forsendur séu alltaf að breytast.
Hann segir þó að ef fram heldur sem horfir varðandi færri innlagnir þá þurfi að bregðast við því. Það sé spítalinn þegar farinn að gera til að geta aukið þjónustu sína við aðra sjúklinga. Passa þurfi vel upp á sóttvarnir svo að veikindi séu ekki borin í aðra sjúklinga.
Landspítalinn er á neyðarstigi. Spurður hvenær hægt verður að aflétta því segir Már að neyðarstigið byggi á því að ekki þurfi utanaðkomandi aðstoð við að sinna verkefnum. „Við erum enn að njóta hennar en um leið og við þurfum það ekki verður þetta örugglega endurskoðað,“ segir hann.