Vísar gagnrýni til föðurhúsanna

Þórólfur Guðnason.
Þórólfur Guðnason. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vísar til föðurhúsanna þeirri gagnrýni sem hefur verið uppi um að hann hafi lítið samráð við aðra nema sjálfan sig.

Á upplýsingafundi almannavarna sagðist hann vera í stöðugu samráði við ýmsa aðila, þar á meðal vísindamenn, sem hann tekur tillit til þegar hann skrifar minnisblöð sín.

Nefndi hann meðal annars samstarfsmenn hjá embætti landlæknis, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og yfirstjórn- og farsóttarnefnd Landspítalans, sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Einnig hefur hann samráð við Íslenska erfðagreiningu og vísindamenn Háskóla Íslands, auk þess sem hann fundar með stýrihópi tvisvar í viku og tekur þátt í vikulegum samráðsfundum með öllum heilsugæslusvæðum á landinu. Einnig fundar hann með kollegum á hinum Norðurlöndunum og aðila innan Sóttvarnastofnunar ESB.

Núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir gilda til 2. febrúar og býst Þórólfur ekki við því að koma með tillögur að breytingum á reglugerðinni fyrr en skömmu áður en hún rennur út.

Hann sagði Ómíkron-afbrigðið vera allsráðandi hérlendis, með um 90% af samfélagssmitum, en færri alvarlegri veikindi séu af völdum þess en Delta-afbrigðisins.

Mesta útbreiðslan er hjá börnum á grunnskólaaldri og eru allt að 50% af greindum smitum í þeim hópi. Alvarleg veikindi hjá þeim eru þó fátíðari en hjá fullorðnum.

Hlutfall þeirra sem þurfa að leggjast inn með Covid-19 er nú um 0,2 gil 0,3% en var áður tæplega 2% þegar Delta-afbrigðið var allsráðandi.

Hann bætti við að við værum enn ekki farin að sjá árangurinn af þeim sóttvarnaaðgerðum sem síðast var gripið til fyrir fimm dögum síðan og nefndi að hann sjáist yfirleitt ekki fyrr eftir um viku.

Breyttur mælikvarði

Þórólfur sagði mælikvarðann varðandi alvarlegar Covid-sýkingar hafa verið fjölda og hlutfall þeirra sem þurfa að leggjast á spítala og gjörgæsludeild. Þessi mælikvarði sé aftur á móti ekki eins skýr núna eftir að Ómíkron varð allsráðandi.  

Núna leggst inn blanda af þremur sjúklingahópum. Í fyrsta lagi eru það þeir sem eru með alvarlegar Covid-sýkingar og þurfa að leggast inn, í öðru lagi þeir sem smitast inni á sjúkrahúsi vegna útbreiddra smita í samfélaginu og eru oft með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma og í þriðja lagi þeir sem þurfa að leggjast inn á spítala vegna annarra veikinda en greinast með Covid í reglulegri skimun, til dæmis við innlögn.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert