N1 biðst velvirðingar og endurgreiðir mismun

N1 Rafmagn segir ætlunina aldrei hafa verið að blekkja neytendur.
N1 Rafmagn segir ætlunina aldrei hafa verið að blekkja neytendur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá 1. janúar 2022 mun N1 Rafmagn selja alla raforku til heimila samkvæmt uppgefnum taxta til allra viðskiptavina, hvort sem þeir hafa skráð sig í viðskipti hjá þeim eða koma í gegnum þrautavaraleið stjórnvalda. Þá hvetja þeir neytendur til að skrá sig hjá þeim orkusala sem þeir kjósa. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var í kjölfar umræðu síðustu daga.

Auk þess mun fyrirtækið endurgreiða mismun á uppgefnum taxta og þrautavarataxta frá 1. nóvember síðastliðnum þegar félagið var valið af Orkustofnun til að sinna þessu hlutverki.

En eins og mbl.is hefur fjallað um var auglýst listaverð hjá N1 Rafmagn 6,44 krónur en rukkað var um 11,16 krónur.

„Við störfum á neytendamarkaði og tökum mark á þeim athugasemdum sem okkur berast og biðjumst velvirðingar á því að hafa ekki gert það fyrr,“ segir í tilkynningunni.

Aldrei ætlunin að blekkja neytendur

„Aldrei var ætlunin að blekkja neytendur á nokkurn hátt og þykir okkur leitt ef neytendur túlka það svo. Vegna skyndilegrar innkomu þrautavaraviðskipta til fyrirtækisins, þurfti N1 Rafmagn að kaupa orku handa þessum hópi á skammtímamarkaði þar sem verð eru afar breytileg og hafa hækkað ört á síðustu misserum. Því skal haldið til haga að N1 Rafmagn hefur á engum tímapunkti fengið mismun á uppgefnum taxta samkvæmt verðskrá og þrautavarataxta í sinn vasa, heldur Landsvirkjun sem selur orku á skammtímamarkaði á mun dýrara verði en til langs tíma,“ segir í tilkynningunni.

Þá hvetur N1 Rafmagn Orkustofnun eindregið til að hraða sinni vinnu hvað varðar þær kvaðir sem orkusali til þrautavara þarf að undirgangast þar sem erfitt er fyrir þann sem fyrir valinu verður að gera ráð fyrir þessum hóp í langtímaviðskiptum sínum við birgja. Taka þurfi inn í myndina ófyrirsjáanlegar verðsveiflur á orkumarkaði og getu orkusalans til að bjóða þessum hópi orku á sem bestu kjörum.

„Við fögnum virkri samkeppni og munum nú sem áður þjónusta okkar viðskiptavini með það að leiðarljósi að bjóða lægsta verð hverju sinni. (Sjá https://aurbjorg.is/rafmagn). Við hvetjum alla neytendur til að skrá sig sjálfa hjá þeim orkusala sem þeir kjósa, án aðkomu stjórnvalda,“ segir að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert