Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir mögulega tilefni til þess að skoða betur það sem hann kallar „sérstakan faraldur meðal barna“. Hann telur mikinn fjölda kórónuveirusmita meðal grunnskólabarna koma á óvart og það geti ekki talist sem eðlilegt frávik.
Rúv greinir frá.
Thor segir faraldurinn nú drifinn áfram af smitum barna en um helmingur þeirra sem greinast jákvæðir á degi hverjum eru á grunnskólaaldri.
Hafa því margir velt vöngum yfir því hvort að skynsamlegt hafi verið að undanskilja skólahald þegar samkomutakmarkanir voru hertar í síðustu viku. Forsætisráðherra hefur sagt mikilvægt að halda uppi rútínu í lífi barna og að halda úti skólastarfsemi þar sem þetta sé tími í þeirra lífi sem kemur ekki aftur.
Thor segir aukningu í fjölda smita eftir helgi vera óvenju mikla en vill þó ekki fullyrða hvort um veldisvöxt sé að ræða en það taki nokkra daga að fá staðfestingu á slíkri breytingu. Ætti það að skýrast undir lok vikunnar hvort merki séu uppi um nýjan vöxt eða nýja bylgju ofan í yfirstandandi bylgju.