Vill að þingmenn fái völd þríeykisins

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við þurfum að horfast í augu við þær vondu fréttir að veiran er komin til að vera, en við megum líka hafa augun opin fyrir þeirri stórgóðu þróun að hún er miklu hættuminni en hún var áður og að með bólusetningu, meðhöndlun og vægari afbrigðum er staðan allt önnur og betri,“ sagði Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðu um sóttvarnaaðgerðir á Alþingi.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra flutti skýrslu um stöðuna en í gær greindust 1.302 kórónuveirusmit innanlands. 32 liggja inni á Landspítala en meirihluti þeirra var ekki lagður inn vegna veirunnar.

Diljá sagði löngu tímabært að ríkisstjórn og þing taki að sér sína lögboðnu og lýðræðislegu skyldu og taki forystu í að leiða íslenskt samfélag úr ógöngum.

„Hlutverk og forysta sóttvarnalæknis og þríeykisins var ómetanlegt í upphafi faraldurs, en það var alltaf vitað að það yrði ekki einfalt að taka völdin aftur inn á svið stjórnmálanna. Það er hins vegar óhjákvæmilegt og það verður að gerast ekki seinna en núna,“ sagði Diljá og kvaðst vonast til þess að heilbrigðisráðherra væri sammála henni.

Bólusettir óttist einangrun og sóttkví

Vegna gjörbreyttrar stöðu faraldursins virðist mikill meiri hluti bólusettra Íslendinga lifa í ótta, ekki við að smitast af Covid heldur við að lenda í sóttkví eða einangrun,“ sagði Diljá. Hún sagði enn fremur að það væri skylda að vernda þá sem eru viðkvæmir, ekki bara þá hópa sem viðkvæmir eru fyrir Covid-smiti.

„Það er líka fólk með fíknisjúkdóma sem hefur ekki haft aðgengi að lífsbjargandi meðferð og AA-fundum vegna takmarkana. Það er líka fólk sem glímir við andlega erfiðleika og er enn viðkvæmara fyrir einangrun og það eru líka börnin okkar. Hafa þessir viðkvæmu hópar ef til vill gleymst á þessum krefjandi tímum?“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum sagði það frumskyldu heilbrigðisstarfsfólks að vernda líf og heilsu og á sama tíma verði heilbrigðiskerfið að ráða við stöðuna; það verði að passa að halda því á floti.

„Þegar óvissan er eins og hún er verðum við að tryggja það,“ sagði Willum.

Hugi að andlegri heilsu barna

Diljá Mist hvatti ráðherra til að vernda líf og heilsu barna og benti á að þúsundir barna hafi ítrekað verið skikkuð í sóttkví og einangrun. „Göngum ekki áfram svo freklega á mikilvæg réttindi barna, til verndar öðrum en þeim sjálfum,“ sagði Diljá.

Willum sagði ákvarðanir einmitt hafa verið teknar varðandi tómstundir og skólastarf barna að halda þeim opnum með andlega líðan þeirra í huga. Það hafi tekist vel hér á landi, svo eftir hafi verið tekið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert