Brotist var inn í bíl Reynis Traustasonar, ritstjóra Mannlífs, í gærkvöldi þar sem hann stóð á bílastæði við Úlfarsfell og lyklum af ritstjórn fjölmiðilsins stolið. Í kjölfarið var farið inn á skrifstofu Mannlífs, stolið þaðan tveimur tölvum og allt fréttaefni þurrkað út af vefnum. Mannlíf lá niðri um stund vegna þessa. Reynir staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
„Þetta er skipulagt rán, það er brotist inn í bílinn minn og þeir eru svo heppnir að þar voru lyklar að ritstjórninni. En ég hafði ekki hugmyndaflug í það að þeir myndu fara hingað. Ég hringdi í lögregluna í gær, á staðnum þar sem brotist var inn í bílinn, en þeir vildu ekki koma. Ég hafði ekki hugmyndaflug í annað en að þetta væri rán en gps-tæki og fleiru var rænt,“ segir Reynir sem hefur sínar grunsemdir um hverjir voru þarna á ferðinni.
Hann áttaði sig ekki á því fyrr en í morgun hver tilgangur innbrotsins var, en þá sá hann að farið hafði verið inn á skrifstofu Mannlífs og skemmdarverk unnið á vefnum. Hann hafði í kjölfarið samband við lögreglu sem kom á staðinn og rannsakaði vettvanginn.
Þeir sem brutust inn virðast hafa setið við í einhvern tíma og eytt öllu út af vefnum nema auglýsingum.
„Þetta er mikið tjón en við vinnum okkur út úr því. Sá sem hýsir vefinn er á fullu við að afturkalla það sem var sótt, en þetta stærsta árás sem gerð hefur verið á fjölmiðil á Íslandi,“ segir Reynir. „Þetta eru einhverjir óvildarmenn en ég er bjartsýnn á að þetta fólk finnist,“ bætir hann við. Ekki sé einfalt mál að finna skrifstofu Mannlífs og því sé líklegt að um sé að ræða einhvern sem þekki til. Sá sami hafi einnig vitað hvar lyklana að skrifstofunni væri að finna.
Reynir segist hafa setið undir hótunum upp á síðkastið og gerð hafi verið krafa um að hann afhenti ákveðin gögn. Hvort málin tengist getur hann þó ekki fullyrt.
„Það þarf að ná glæpamönnunum sem gerðu þetta. Það getur verið að menn fallist á allskonar slagsmál gegn fjölmiðlum og allt það, en þú getur ekki fallist á innbrot og þú getur ekki fallist á að búa við stöðugar hótanir eins og við höfum gert undanfarið.“