Þríeykið áfram með í ráðum

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að þingið eigi aðkomu að umræðum um samkomutakmarkanir og sóttvarnaaðgerðir. Hann telur hollt að samtal eigi sér stað um hvernig best sé að hátta því fyrirkomulagi og skoða þá valkosti sem standa til boða.

Hann segir þó ekki tímabært að draga úr aðkomu þríeykisins í þessum málum enda nauðsynlegt að fylgja ráðum okkar færustu sérfræðinga á sviði smitsjúkdóma.

Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fleiri þingmenn sama flokks hafa lagt fram frumvarp til breytingar á sóttvarnalögum sem kveða meðal annars á um að tillögur sóttvarnalæknis verði kynntar fyrir velferðarnefnd þingsins þegar þær eru notaðar til grundvalla takmarkandi aðgerða.

Segir í ákvæðinu, sem lagt er til með að bætist við sóttvarnalög, að ráðherra kynni ákvörðun um setningu reglna í velferðarnefnd Alþingis áður en þær taka gildi eða svo fljótt sem verða má.

Þarf að tryggja að þingið komi að málum

Telur þú skynsamlegt að þingið fái meira að segja um sóttvarnaaðgerðir en það gerir nú þegar?

„Ég vil nú bara segja að það er alltaf mikilvægt að þingið eigi aðkomu,“ segir Willum og bætir við að hann sé í miklum samskiptum við þingið og hafi meðal annars komið tvisvar fyrir velferðarnefnd að ræða faraldurinn frá því að hann tók við embætti heilbrigðisráðherra.

„Það er mjög misjafnt hvað fólk sér fyrir sér og miðar gjarnan við eins og þetta hefur verið. Kosturinn við þetta fyrirkomulag eins og það hefur verið er að ákvarðanir eru teknar tiltölulega hratt en við verðum alltaf að tryggja það að þingið komi að málum. Það er bara spurning um hvaða fyrirkomulag og með hvaða hætti.“

Nauðsynlegt að rökstyðja

Í greinagerð frumvarpsins sem minnst var á hér að ofan er einnig farið fram á að ráðherra skili þinginu skýrslu svo fljótt sem auðið er verði takmarkandi reglur settar, þar sem fram koma ítarleg rök fyrir nauðsyn þeirra.

Heilbrigðisráðherra tekur undir mikilvægi þess að rökstyðja nauðsyn samkomutakmarka vel.

„Það verðum við alltaf að gera og það gerum við ávallt. Við metum alltaf allar tillögur sem að við fáum frá okkar færasta fólki með tilliti til jafnræðis og meðalhófs. Nú var ég bara síðast í gær að flytja þinginu skýrslu og eiga samtal við þingið og ég lít bara þannig á að það sé gott að ræða þetta fyrirkomulag.“

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að þríeykið muni koma til með að fá minni aðkomu að samtalinu um sóttvarnaaðgerðir og takmarkanir innanlands kveðst hann ekki eiga von á því.

„Nei það held ég nú hafi bara sýnt sig í gegnum þennan faraldur hversu mikilvægt það er að við fylgjum ráðum okkar færustu sérfræðinga á sviði smitsjúkdóma og sóttvarna. En við sem erum í stjórnmálum, og stjórnvöld, verðum að meta þetta út frá öðrum mælikvörðum að hverju sinn.“

Skoða stöðuna á hverjum degi

1.456 kórónuveirusmit greindust innanlands í dag. Spurður hvort nauðsynlegt sé að breyta um taktík í sóttvarnaaðgerðum þar sem fjöldi smita virðist ekki fara lækkandi þrátt fyrir umfangsmiklar samkomutakmarkanir, segir Willum að staðan sé metin á hverjum degi. 

„Við skoðum þetta og metum. Það er talað um að það taki sjö daga fyrir þær takmarkanir sem hafa verið settar á að skila árangri. Þetta er vandmeðfarið þegar við erum með afbrigði sem er meira smitandi.“

Erum við mögulega í þeirri stöðu að við vitum hreinlega ekki hvað virkar gagnvart Ómíkron-afbrigðinu?

„Við getum líka spurt okkur: Hvað ef við gerðum ekkert" segir Willum. 

„Við höfum náð að hemja útbreiðsluna. Þetta er hins vegar mjög svipuð þróun og er að gerast hjá öðrum þjóðum. Við erum að horfa til þess að þetta fari upp. Aðrar þjóðir hafa verið að beita mjög svipuðum aðgerðum og fært sig nær okkar aðgerðum.

Ef við horfum til Bretlands – sem er kannski þremur vikum á undan okkur í bylgjunni – þá fór þetta mjög hátt upp og svo allt í einu tók það snúning þannig að við verðum bara að meta þetta út frá gögnum. Það jákvæða er að legutíminn er að styttast og innlagnarhlutföll eru að lækka. Það breytir því ekki að það vantar 200 [starfsmenn á Landspítala] og við erum með 35 inniliggjandi sem þurfa á þjónustu og umönnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert