Tíu manna takmarkanir gangi ekki

Sigmar segir nauðsynlegt að ráðast í afléttingar hratt og örugglega.
Sigmar segir nauðsynlegt að ráðast í afléttingar hratt og örugglega.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir ljóst að stjórnvöld séu að bregðast við auknum þrýstingi á afléttingar í samfélaginu. Heilbrigðisráðherra og forstjóri Landspítala greindu frá því í í pistli á Vísi í morgun að ráðist yrði í afléttingar í skrefum.

„Sem er auðvitað rökrétt skref. Mér finnst þetta mjög varfærin grein, ég hefði viljað sjá aðeins nánar útlistað hvernig ætti að gera þetta,“ segir Sigmar.

Hann telur að á meðan staðan á spítalanum hafi farið fram úr björtustu spám gangi ekki að hafa tíu manna samkomutakmarkanir.

Spyr hvers vegna ekki hafi verið gripið til álagsgreiðslna fyrr

„Núna er skurðpunkturinn á milli mannréttinda og takmarkana á röngum stað. Eins og ég met stöðuna, hafandi hlustað meðal annars á sérfræðinga á spítalanum, þá þurfa menn að fara að aflétta aðgerðum hratt og örugglega,“ segir Sigmar.

Inntur eftir nánari skýringum hvers vegna segir hann:

„Ástæðan fyrir því er að tölurnar á spítalanum, sem alltaf er verið að vísa okkur á, þær ofureinfaldlega segja okkur að það sé ekki viðunandi að það séu svona rosalega harðar takmarkanir á meðan álagið er ekki meira á spítalanum og gjörgæslunni.“

Þá hnýtur hann um álagsgreiðslur starfsmanna á Landspítalanum, sem gripið verður til vegna ástandsins að því er fram kemur í pistlinum. 

„Þá veltir maður fyrir sér; hefðu slík úrræði ekki fyrr í faraldrinum getað líka gert það að verkum að takmarkanir ættu að vera vægari en þær voru. Mér finnst sú spurning svolítið áleitin miðað við framsetningu greinarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert