Fagnaði orðum Kára

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir tilefni til …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir tilefni til afléttinga blasa við. mbl.is/Unnur Karen

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir jákvætt að heyra breyttan tón í umræðunni um sóttvarnaaðgerðir og samkomutakmarkanir. Hún segir tilefni til afléttinga blasa við enda hafi augljósar breytingar orðið á veirunni. Hefur það legið fyrir um nokkurra vikna skeið.

„Það liggur líka fyrir að heimildir stjórnvalda til þess að beita opinberum sóttvarnaaðgerðum eru bundnar við tiltekna ógn af heimsfaraldri. [...] Þannig að ég fagna því bara að maður skynjar að fólk sé að leyfa sér að segja það upphátt að við séum raunverulega að taka markviss skref út úr þessu ástandi enda fullt tilefni til og ég vona að það gerist hratt og örugglega.“

Þrátt fyrir að hafa ekki ávallt verið sammála ákvörðunum heilbrigðisyfirvalda um sóttvarnaaðgerðir, telur hún að Ísland hafi almennt staðið sig vel hvað varðar viðbrögð við faraldrinum. Bæði viðbrögð sem varða sóttvarnir og efnahaginn. 

„Heilt yfir getum við verið mjög stolt af okkur hvernig við tókum á þessu,“ segir Þórdís.

Skiptar skoðanir um fyrirsjáanleika

Síðastliðinn júní, skömmu eftir að hertar samkomutakmarkanir tóku gildi á ný, sagði Þórdís Kolbrún að stefnumótunarvinna væri hafin um framtíðarsýn stjórnvalda um viðbrögð við heimsfaraldrinum. Ætluðu stjórnvöld að gefa sér tvær til þrjár vikur í þessa vinnu en lítið hefur bólað á niðurstöðum hennar. Vakti Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, meðal annars athygli á þessu á Alþingi í síðustu viku.

Spurð út í þá stefnumótunarvinnu og hvernig henni hafi fundist ganga að halda uppi fyrirsjáanleika síðustu mánuði, segir Þórdís að vilji sé innan ríkisstjórnar að halda uppi fyrirsjáanleika, aftur á móti hafi ekki allir verið á sama máli um hve raunhæft það sé.

„Það urðu mjög skýr þáttaskil þegar við vorum orðin svo gott sem fullbólusett þjóð og ég átta mig vel á því að alltaf er þetta að breytast og það er alveg sameiginlegur vilji allra að vera með þennan fyrirsjáanleika en mörgum þykir það ekki raunhæft. Líka stundum þegar ég hef viljað gefa skýrari svör. En heilt yfir höfum við staðið okkur vel.“

Aðstæður breyttar frá því í sumar

Er tilefni til að taka upp þá vinnu sem hófst í sumar varðandi stefnu og framtíðarsýn í viðbrögðum eða eru forsendurnar nú breyttar?

„Ég held að að mörgu leyti séu aðstæður mjög breyttar frá því síðastliðið sumar. Alltaf eiga þessar sömu spurningar við. Hvernig erum við að vernda líf og heilsu fólks almennt og lágmarka efnahagslegan skaða. Þeir mælikvarðar sem við myndum setja inn í þá mynd núna eru sem betur fer aðrir heldur en síðastliðið sumar.

Sú vinna sem farið var í þá hefur sem betur fer nýst okkur en sem betur fer getum við í mínum huga tekið stærri og markvissari skref núna án þess að liggja yfir því hvað gerist svo vegna þess að verkefnið er að koma okkur aftur í það horf sem við vorum fyrir faraldurinn þegar kemur að athafnafrelsi fólks. Og það þarf enga nýja stefnumótun til að komast að þeirri niðurstöðu. Markmiðið hefur alltaf verið að koma okkur í eðlilegt horf og núna eru allar forsendur til þess. Það er í raun grundvallaratriðið.“

Aumari og hættuminni veira

Spurð hvort hún telji forsvaranlegt að grípa aftur seinna til þeirra sóttvarnaaðgerða sem ríkja nú í faraldrinum, segir hún ekkert benda til þess. 

„En eftir tvö ár af þessu tímabili ætla ég ekki að vera sú sem segir hvað framtíðin ber í skauti sér þegar kemur að þróun faraldursins. En það virðist vera að gerast sem við vorum að vona, að [veiran] yrði aumari. Þó hún sé meira smitandi þá er hún aumari og svo hættuminni að hún er eðlisólík því sem hún var, þannig að hvað getur síðan fræðilega gerst seinna, við verðum bara að fylgjast með því,“ segir Þórdís.

Bætir hún við að mögulegar hindranir í framtíðinni eigi ekki að koma í veg fyrir að við afléttum þeim takmörkunum sem lagðar voru á réttindi fólks.

Kári Stefánsson [forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar] sagði í viðtali í morgun að það væri tilefni til að aflétta öllu, ertu sammála því eða þurfum við að taka varfærnari skref – mögulega fara í 20 manna samkomubann?

„Segjum það að ég hafi fagnað því mjög að lesa þessi orð Kára Stefánssonar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert