Nokkur börn þáðu sinn annan skammt í dag

Mætingarhlutfall í bólusetningu er hærra eftir því sem börnin eru …
Mætingarhlutfall í bólusetningu er hærra eftir því sem börnin eru eldri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hátt hlutfall barna í einangrun og sóttkví gæti hafa sett strik í reikningin hvað varðar þátttöku þeirra í bólusetningum gegn Covid-19 síðustu tvær vikur. Þetta segir Sig­ríður Jó­hanna Sig­urðar­dótt­ir, verk­efna­stjóri bólu­setn­inga hjá Heilsu­gæslu höfuð­borg­ar­svæðis­ins.

Bólusetningar barna á aldrinum fimm til ellefu ára hófust 10. janúar. Til að byrja með þótti mætingarhlutfallið nokkuð gott en síðar fór að draga úr því.

Hæsta hlutfallið meðal 2010 árgangsins

Samkvæmt upplýsingum frá embætti sóttvarnalæknis var hæsta mætingarhlutfallið meðal elsta árgangsins, eða þeirra barna sem fæddust árið 2010, en um 60% þeirra hafa þegið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni á landsvísu.

Mætingin er þó dræmari eftir því sem börnin eru yngri en til samanburðar hafa um 35% leikskólabarna, sem fædd eru árið 2016, þegið sinn fyrsta skammt af bóluefni á landsvísu.

„Við reiknum með að það hafi verið sirka 500 börn á dag sem voru í hópnum sem var kallaður til á hverjum degi en af þeim voru um 160 sem mættu,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is, um mætinguna meðal leikskólabarnanna á höfuðborgarsvæðinu.

Hlutfall þeirra barna sem þegið hafa einn skammt af bóluefni …
Hlutfall þeirra barna sem þegið hafa einn skammt af bóluefni gegn Covid-19, skipt eftir fæðingarári. Graf/Embætti sóttvarnalæknis

Mörg börn nú þegar sýkst af veirunni

Sigríður kveðst ekki hafa skýringu á þessu en hún vekur þó athygli á að stór hluti barna á þessum aldri hafa nú þegar smitast af kórónuveirunni eða verið í sóttkví undanfarna daga. Gæti það hafa haft áhrif á mætinguna. 

Þeir sem sáu sér ekki fært um að mæta á tilsettum tíma í bólusetningu hafa þó ekki misst af tækifærinu en foreldrar og forráðamenn geta enn mætt með börnin sín niður í Laugardalshöll.

Þegar þrjár vikur hafa liðið frá fyrsta skammti geta börnin síðan mætt í sinn annan skammt, en að sögn Sigríðar mættu nokkrir í sína seinni sprautu í dag. Voru það börn sem höfðu þegið fyrsta skammtinn á undan áætlun.

Ekki er þörf á að skrá börnin aftur eins og tíðkast fyrir fyrri sprautu.

Sendu út boð í dag og í gær

Þá hafa örvunarbólusetningar einnig farið hægt af stað þessa vikuna. Var því gripið til þess ráðs að senda út boð á hóp einstaklinga sem eru gjaldgengir í örvunarskammt. Fengu 1.600 boð í gær og 900 í dag.

Er þetta breyting frá því í síðustu viku þegar nánast engin boð voru send.

Von bráðar mun bólusetning færast úr stóra salnum í Laugardalshöll vegna fyrirhugaðra framkvæmda en að sögn Sigríðar verður reynt að finna lausnir á þeim vanda innanhúss.

„Við færum okkur ekki úr höllinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert